Keflavík tapaði gegn Val
Keflavík mætti Íslandsmeisturum Vals á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag í 32 liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Nokkrar breytingar voru á liðinu frá því að það mætti Stjörnunni í Pepsi-deildinni en Anton Freyr, Aron Freyr og Einar Orri komu í byrjunarliðið fyrir Juraj, Adam Árna og Hólmar Örn var ekki í hópnum í dag.
Leikurinn byrjaði af hörku og var augljóst að hvorugt lið ætlaði sér að tapa í leiknum, Valur náði að komast í 1-0 forystu á 15. mínútu með marki frá Ólafi Karli Finsen og staðan því orðin 1-0 fyrir heimamenn. Keflvíkingar léku þétt til baka í fyrri hálfleik og gáfu Val ekki mikið pláss á sínum vallarhelming, Valur leiddi með einu marki gegn engu þegar liðin gengu inn í klefa í hálfleik.
Á 51. mínútu komst Valur í 2-0 með marki með Dion Acoff. Keflavík gerði breytingu á liði sínu á 60. mínútu þegar Sigurbergur Elísson kom inn á fyrir Aron Frey Róbertsson. Önnur skipting Keflavíkur var á 72. mínútu þegar Leonard Sigurðsson kom inn á fyrir Einar Orra Einarsson og á 81. mínútu notaði Keflavík síðustu skiptingu sína þegar Davíð Snær Jóhannsson kom inn á fyrir Frans Elvarsson.
Leiknum lauk með sigri Valsmanna og Keflavík er því úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu.
Mörk leiksins:
1-0 Ólafur Karl Finsen ('15)
2-0 Dion Acoff ('51)