Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík tapaði fyrir Val
Sigurbergur Elísson í baráttunni í kvöld
Sunnudagur 14. júní 2015 kl. 22:34

Keflavík tapaði fyrir Val

Tvö mörk á tveimur mínútum fóru með heimamenn

Keflavík tapaði í kvöld fyrir Valsmönnum á Nettóvellinum í Reykjanesbæ, 1-2. Tvö mörk með mínútu millibili urðu heimamönnum of stór biti og liðið náði ekki að ógna sigri Vals að neinu ráði þrátt fyrir að hafa náð að minnka muninn um miðjan síðari hálfleik.

Fyrsti hálftími leiksins var tíðindalítill og nánast ekkert um marktækifæri en það voru þó Valsmenn sem að voru í bílstjórasætinu og stjórnuðu gangi leiksins og fengu nokkrar hornspyrnur sem að Keflvíkingar vörðust vel auk þess að fá eitt gott færi þegar Patrick Pedersen skaut yfir úr ákjósanlegu færi á 30. mínútu. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var svo á 42. mínútu sem að Valsmenn fengu dæmda vítaspyrnu er Haukur Páll Sigurðsson féll við í teignum eftir hornspyrnu. Blaðamaður sá ekki hvað varð til þess að Haukur féll við en heimamenn mótmæltu dómnum harðlega og úr fjarska virtist ekki hafa verið mikið um snertingu en endursýning á atvikinu gæti varpað ljósi á hvað það var sem að Gunnar Jarl, dómari leiksins, sá athugavert. Daninn Patrick Pedersen steig á punktinn og skoraði framhjá Sindra Kristni Ólafssyni sem að var með hönd í boltanum en allt kom fyrir ekki og Valsmenn komnir yfir.

Það var svo mínútu síðar sem að Sindri gerði sig sekan um hrikaleg mistök þegar Valsmenn sendu langa sendingu upp miðjan völlinn sem að varnarmenn Keflavíkur virtust hafa fullkomin tök á en markvörðurinn ungi kom á hlaupinu út úr vítateignum á meðan Kiko Insa ætlaði að skalla aftur til baka á hann en þess í stað sigldi boltinn yfir Sindra og í autt markið. Afar sorglegt og óþarfa mark sem að Keflvíkingar urðu að kyngja og má skrifa á algjört samskiptaleysi í öftustu línu heimamanna. Ekki í fyrsta skipti í sumar sem að Keflvíkingar gera sig seka um klaufaleg markmannsmistök en Richard Arends, sem er frá vegna meiðsla, hefur verið duglegur að koma sér í vandræði í markinu það sem af er sumri.

Staðan var því 0-2 í hálfleik þar sem að Keflvíkingar höfðu ekki skapað sér nein færi og vantaði ákveðna grimmd í þeirra leik sem að sást í síðasta leik gegn ÍBV. 

Síðari hálfleikur var rólegur til að byrja með þar sem að Valsmenn voru hættulegri framan af og Patrick Pedersen var að valda mestum usla á vellinum og skaut hárfínt framhjá á 53. mínútu eftir góða sókn gestanna.

Á 63. mínútu var svo komið að Ingvari Kale að súpa seyðið af eigin klaufaskap þegar hann kom askvaðandi útúr Valsmarkinu til að hreinsa burt bolta í innkast sem og hann gerði með þessum líka fína flugskalla sem að gladdi augað. Ingvar hefur ekki reiknað með að boltasækjarar á Nettóvellinum væru í fantaformi þessa dagana því þeir voru fljótir að skipta inn nýjum bolta í hendur Keflvíkinga sem að tóku fljótt innkast. Hólmar Örn Rúnarsson nýtti sér skógarhlaup Ingvars með frábæru skoti sem að sigldi upp í samskeytin fjær á meðan markvörðurinn horfði á eftir boltanum á bakaleið sinni í markið. Hólmar fagnaði markinu vel og innilega og blés sínum mönnum byr í brjósti fyrri vikið.

Keflvíkingar settu þónokkra pressu á Valsmenn á síðustu 20 mínútum leiksins en tókst illa að skapa sér hættuleg færi. Á síðustu mínútu uppbótartíma fékk Sigurbergur Elísson besta færið en skot hans fór rétt yfir markið og mátti heyra saumnál detta í stúkunni á meðan svekktir stuðningsmenn Keflvíkinga héldu niðri í sér andanum í von um dramatískt jöfnunarmark á lokasekúndunum. Valsmenn voru þó nálægt því að skora þriðja markið þegar Sindri Kristinn var mættur fram í sóknina en á einhvern óskiljanlegan hátt náðu Valsmenn ekki að nýta sér að vera þrír á móti einum varnarmanni djúpt á vallarhelmingi Keflvíkinga

Staðreyndin varð því 1-2 tap og Keflvíkingar sitja því enn á botni deildarinnar ásamt ÍBV með 4 stig.

Keflvíkingar söknuðu Einars Orra Einarssonar í kvöld en hann tók út leikbann fyrir uppsöfnuð gul spjöld og vantaði baráttu og grimmd í leik heimamanna. Síðustu 20 mínútur leiksins voru skástar en ætli liðið sér að ná í úrslit þarf sóknaruppbyggingin að verða markvissari því í kvöld virkaði hún tilviljanakennd og áttu Valsmenn svör við flest öllu sem að Keflvíkingar tefldu fram á við.

[email protected]