Keflavík tapaði fimmta leiknum í röð
Keflavík lék gegn Þrótti í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í gær og voru það Þróttarar sem höfðu sigur.
Það gengur ekkert hjá Keflvikingum þessa dagana og var þetta fimmta tap þeirra í röð. Keflavík er í fallsæti með níu stig en stutt er í næstu lið, Tindastóll er með ellefur og Þór/KA með þrettán.
Leikurinn byrjaði illa fyrir Keflavík sem lenti á fyrstu mínútu. Heimaliðið byrjaði af krafti en Keflvíkingar unnu sig inn í leikinn eftir því sem leið á, staðan 1:0 í hálfleik.
Sagan endurtók sig í síðari hálfleik, Þróttarar skoruðu annað mark sitt í blábyrjun hálfleiksins (47') og Keflavík nú tveimur mörkum undir. Við það að vera tveimur mörkum þurftu Keflvíkingar að bæta í sóknarleikinn á kostnað varnarinnar sem Þróttarar nýttu og skoruðu þriðja markið undir lok leiks (88').
Keflavík varð fyrir blóðtöku í snemma í síðari hálfleik þegar Ísabel Jasmín Almarsdóttir þurfti að fara meidd af velli. Hún lenti í harkalegu samstuði og fór með sjúkrabíl til skoðunar en í fyrstu leit út fyrir að um alvarleg meiðsli væri að ræða. Víkurfréttir heyrðu í Gunnari M. Jónssyni, þjálfara Keflavíkur, í dag og hann sagði að sem betur fer liti út fyrir að Ísabel væri ekki eins alvarlega slösuð og talið var í fyrstu. Það hafi litið út eins og liðbönd eða krossbönd hefðu skaddast en í ljós komu bara bólgur svo hún ætti að jafna sig á einhverjum dögum eða vikum.