Keflavík tapaði að Ásvöllum
Haukar eru komnir með 4ra stiga forskot í Iceland Express deild kvenna eftir sigur á Keflavík í gær 89 – 84 að Ásvöllum.
Keflavík hafði yfir að loknum 1. leikhluta 19 – 20 og svo gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 44 – 48 Keflavík í vil.
Haukakonur komu grimmar til seinni hálfleiks og pressuðu vel á Keflavík sem gaf þeim nokkrar auðveldar körfur. Þriðji leikhluti var óskynsamlega leikinn af hálfu Keflavíkurkvenna sem köstuðu boltanum frá sér í hvívetna. Haukar náðu forystunni og lauk 3. leikhluta 66 – 64 eftir að Keflavík hafði náð að klóra í bakkann undir lok leikhlutans. Keflavík tapaði boltanum 28 sinnum í leiknum á móti 18 töpuðum boltum frá Haukum.
Jafnræði var með liðunum í leiknum en Haukar sigu fram úr á endanum og höfðu 5 stiga sigur 89 -84 og eru nú í vænlegri stöðu á toppi deildarinnar.
La Barkus var stigahæst hjá Keflavík með 28 stig og 10 fráköst. Hjá Haukum átti Meagan Mahoney góðan leik með 32 stig og 12 fráköst. Þá gerði Birna Valgarðsdóttir 14 stig hjá Keflavík og Helena Sverrisdóttir 17 hjá Haukum.
VF – myndir/ JBÓ