Keflavík sterkari gegn nágrönnum sínum úr Grindavík
Það var hiti í Toyotahöllinni þegar Grindavík sótti Keflavík heim. Þessi leikur var mikilvægur fyrir bæði lið uppá stöðuna í deildinni. Keflavík hafði þó mun betur og unnu heimamenn nokkuð öruggan sigur, 86-71.
Keflavík byrjuðu sterkari og náðu yfirhöndinni strax á fyrstu mínútu. Þeir gulu voru ekki að ná takti í sóknarleiknum né varnarleiknum. Magnús Þór Gunnarsson var að setja góðar körfur fyrir Keflavík og var staðan eftir fyrsta leikhluta 24-13.
Keflvíkingar voru ekki á því að hætta og höfðu gaman að því að láta Nick Bradford, fyrrum liðsfélaga sinn, finna fyrir því. Þeir juku muninn hægt og rólega en bæði lið voru mikið að skjóta fyrir utan þriggja stiga línuna. Mikill hiti var í leiknum eins og oft er í svona nágrannaslag og voru leikmenn að leggja mikið inní tæknivillubankann fyrir hálfleik. Staðan í hálfleik var 50-30, tuttugu stiga forskot heimamanna.
Atkvæðamestir í hálfleik í liði Keflavíkur voru Magnús Þór Gunnarsson með 14 stig, Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 14 stig og 6 fráköst og Hörður Axel Vilhjálmsson með 9 stig. Hjá Grindavík voru Ólafur Ólafsson með 10 stig, Páll Axel Vilbergsson með 9 stig og Mladen Soskic með 6 stig.
Það hitnað enn meira í Toyotahöllinni í þriðja fjórðungi þó munurinn hafi haldist sá sami. Ryan Pettinella fékk dæmdan á sig ruðning en það fór eitthvað illa í hann og voru allir leikmenn komnir í eina hrúgu. Þetta róaðist þó allt saman. Nick Bradford var með mikla athygli áhorfenda og var öskrað og klappað í hvert skipti sem hann gerði einhver mistök.
Grindvíkingar komu sterkir til baka í seinasta fjórðunginum. Munurinn var þó alltof mikill fyrir stuttan tíma sem eftir var og unnu Keflvíkingar því öruggan sigur. Til gamans má geta að bæði Jón Norðdal Hafsteinsson og Thomas Sanders, lykilmenn í liðinu, voru hvorugur með og sýndi Keflavík hversu sterkt lið það er.
Atkvæðamestir í liði Keflavíkur voru Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 25 stig og 8 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson með 17 stig, þar af 5 þriggjastiga körfur, Halldór Örn Halldórsson með 13 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 12 stig.
Stigahæstir í liði Grindavíkur voru Ólafur Ólafsson með 15 stig og 9 fráköst, Páll Axel Vilbergsson með 12 stig og 9 fráköst, Ármann Vilbergsson með 12 stig, þar af 4 þriggjastiga körfur og Ryan Pettinella með 9 fráköst.
Fleiri myndir frá leiknum má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.
VF-Myndir: Siggi Jóns - [email protected]