Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík sterkari aðilinn í miklum baráttuleik
Sindri Kristinn Ólafsson bjargaði vel í tvígang í lok leiks til að tryggja Keflavík sigur. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 22. maí 2022 kl. 22:25

Keflavík sterkari aðilinn í miklum baráttuleik

Það var harka og barátta sem einkenndi leik Keflavíkur og FH í Bestu deild karla í knattspyrnu sem fór fram á HS Orkuvellinum í dag. Keflavík skoraði tvö mörk gegn einu marki FH í fyrri háfleik og þar við sat, 2:1 sigur Keflvíkinga.

Keflavík lék gegn frekar stífum vindi í fyrri hálfleik en það var ekki langt liðið á leikinn þegar Keflavík fékk fyrsta færið. Þá átti Kian Williams góða sendingu á Adam Ægi Pálsson inn fyrir vörn FH en varnarmaður komst fyrir skot hans sem breytti um stefnu og fór naumlega framhjá. Örfáum mínútum síðar vann Williams boltann, sótti hratt og átti aftur góða sendingu inn fyrir vörn FH – nú á Patrik Johannesen sem gerði vel að afgreiða boltann í mark gestanna og koma Keflavík yfir (12’).

Patrik Johannesen gerði vel þegar hann skoraði fyrra mark Keflvíkinga.

Keflavík var sanngjarnt komið yfir í leiknum en á 24. mínútu sótti FH upp vinstra megin, boltinn kom inn á nærstöng og virtist hann einhvern veginn leka í gegn og yfir línuna, staðan jöfn eftir klaufagang í vörn heimamanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar sýndu frábæran karakter, héldu haus og sóttu áfram. Aftur var Johannesen á ferðinni skömmu eftir jöfnunarmarkið, átti gott skot sem fór af varnarmanni og aftur fyrir. Keflavík fékk hornspyrnu og þar kom Dani Hatakka aleinn og óvaldaður og stangaði boltann í netið án þess að FH gæti rönd við reist (27’).

Varnarmenn FH gleymdu Dani Hatakka sem skoraði sigurmarkið með skalla eftir hornspyrnu.

Vörn Keflavíkur var þétt og staðan breyttist ekki fram að hálfleik þótt FH reyndi að auka í sóknina. Svipað var upp á teningnum í seinni hálfleik, vörn heimamanna gaf fá færi á sér og Keflvíkingar voru óhræddir við að sækja. Að vera undir virtist fara ósegjanlega mikið í taugarnar á FH-ingum sem reyndu hvað þeir gátu að jafna metin. Harkan jókst eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og vafasamar tæklingar sáust á báða bóga. Nokkur gul spjöld fóru á loft.

Það þarf eitthvað til að Ivan Kaliuzhnyi kveinki sér – FH-ingurinn ekki sáttur við að dæmt hafi verið á hann.

Eftir venjulegan leiktíma bættust fimm mínútur við leikinn og í uppbótatíma sótti FH stíft en varnarlína Keflvíkinga var ekki á þeim buxunum að gefa sigurinn frá sér. Tvisvar þurfti Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, að taka á honum stóra sínum og verja vel þegar sóknarmaður FH komst í gegn en fleiri urðu mörkin ekki og mikilvægur sigur Keflvíkinga í höfn.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni. Þá er viðtal við fyrirliða Keflvíkinga, Magnús Þór Magnússon, í spilaranum hér að neðan.

Keflavík - FH (2:1) | Besta deild karla 22. maí 2022