Keflavík sótti sigur í Ásgarð
-Njarðvík og Grindavík töpuðu í kvöld
Keflavík sigraði lið Stjörnunnar örugglega í Ásgarði í kvöld, 57-72, í Dominos deild kvenna í körfubolta. Keflvíkingar náðu forystunni í öðrum leikhluta og héldu henni, en þær voru að nýta skot sýn betur en Stjörnukonur í kvöld. Stigahæst hjá Keflavík var Dominique Hudson með 20 stig og 9 fráköst, Erna Hákonardóttir var með 12 stig og Birna Valgerður Benónýsdóttir 11 stig og 3 fráköst. Hjá Stjörnunni var Danielle Rodriguez gríðarlega öflug með 21 stig, 14 fráköst, 5 stoðsendingar, 9 stolna bolta og 4 varin skot og Ragna Margrét Brynjarsdóttir skilaði 10 stigum og 6 fráköstum.
Grindavík tapaði gegn Haukum í Schenkerhöllinni, 65-58. Grindvíkingar náðu ekki að nýta tveggja stiga skot sín nægilega vel og voru með marga tapaða bolta, eða heila 25 í leiknum. Ashley Grimes var sterkust í liði Grindavíkur og skoraði 27 stig og tók 10 fráköst og María Ben Erlingsdóttir var með 8 stig og 4 fráköst. Hjá Haukum skoraði Michelle Mitchell 23 stig og tók 13 fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir var með flottar tölur, 13 stig, 6 fráköst, 8 stoðsendingar og 6 stolna bolta.
Njarðvík tapaði gegn Val í Valshöllinni, 74-55, en þær léku án Carmen Tyson-Thomas, sem er meidd. Njarðvíkingar voru með fína nýtingu en virðast hafa verið heldur feimnar við að skjóta, en þær skutu aðeins 35 skotum í leiknum ef frá eru talin víti. Stigahæst Njarðvíkinga var Björk Gunnarsdóttir með 15 stig og 3 fráköst og Soffía Rún Skúladóttir skoraði 11 stig og var einnig með 3 fráköst. Hjá Val var Mia Loyd með 26 stig, 17 fráköst og 4 stoðsendingar og Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 14 stig og tók 8 fráköst.
Keflavík og Snæfell tróna á toppi deildarinnar, Njarðvík er í 4. sæti og Grindavík er neðst í 8. sæti.