Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík sigruðu Fjölni á heimavelli – Yfir 200 stig í kvöld
Fimmtudagur 10. febrúar 2011 kl. 21:58

Keflavík sigruðu Fjölni á heimavelli – Yfir 200 stig í kvöld

Keflavík gerði sér lítið fyrir og unnu Fjölni í Iceland Express deild karla í körfuknattleik með 31 stigi í kvöld, 116-85, en leikur fór fram í Toyotahöllinni. Bæði lið skoruðu samtals 201 stig og er það mjög mikið. Allir leikmenn Keflavíkur nema einn komust á blað í kvöld en Hafliði Már Brynjarsson, sá ungi og efnilegi, spilaði seinustu þrjár mínúturnar og setti eina þriggjastiga körfu við mikil fagnaðarlæti áhorfenda.

Leikurinn fór rólega af stað þar sem Keflavík náði sér í þægilega forystu. Fjölnismenn létu sitt þó ekki eftir liggja og voru alltaf á hælum Keflvíkinga og gerðu þeim erfitt fyrir. Thomas var afkasta mestur í liði Keflavíkur í fyrsta leikhluta með 9 stig en Brandon Ja Juan Springer hjá Fjölni með 11 stig.

Keflavík duttu svo almennilega í gang í öðrum leikhluta en það má segja að Magnús Þór Gunnarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson hafi skotið þá í gang með þriggjastiga skotum sínum. Þess má geta að Magnús Þór átti frábæran leik þó hann hafi ekki skorað nema 14 stig en hann var allt í öllu og bjó til hin ótrúlegustu færi fyrir liðsmenn sína. Staðan í hálfleik var 59-42 Keflavík í vil.

Í seinni hálfleik fór að hitna í kolunum og fauk í nokkra leikmenn. Hörður Axel fékk dæmdan á sig ásetning en smá pirringur var í mönnum. Dómararnir náðu að róa leikmenn og hélt leikurinn áfram.

Keflavík sigldi svo sigrinum hægt og rólega í höfn og endaði leikurinn með þriggjastiga körfu frá Gunnari Stefánssyni. Loka tölur voru eins og áður segir 116-85.

Stigahæstur í liði Keflavíkur var enn og aftur Thomas Sanders með 19 stig en honum á eftir kom Gunnar Einarsson með 16 stig, Magnús Þór Gunnarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 14 stig. Halldór Örn Halldórsson var með flestu fráköstin eða 11 talsins.

Brandon Ja Juan Springer var afkastamestur í liði Fjölnis með 26 stig. Honum á eftir kom Tómas Heiðar Tómasson með 16 stig og Jón Sverrisson með 11 stig.

Fleiri ljósmyndir frá leiknum má sjá í ljósmyndasafni Víkurfrétta með því að smella hér.

VF-Myndir: Siggi Jóns

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024