Keflavík sigrar Madeira í Evrópubikarnum! Eru efstir í sínum riðli
Keflavík bar sigurorð af CAB Madeira í kvöld eftir frækilega frammistöðu. Lokastaðan var 99-88 eftir mikinn baráttuleik, mjög gott spil á köflum og óhemju gott framtak einstakra leikmanna.
1. leikhluti (21-23)
Leikurinn var afskaplega jafn framan af og portúgölsku gestirnir leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta. Það var að öllu leyti Servera og Termens að þakka því að þeir settu 17 af 23 stigum sinna manna.
2. leikhluti (41-39)
Annar leikhluti byrjaði ekki vel hjá Keflvíkingum þar se3m þeir virkuðu oft of bráðir í sókninni og lentu þeir því undir. Þá var komið að þætti Nicks Bradford, en hann tók af skarið og skoraði 4 síðustu körfur Keflavíkur í leikhlutanum. Þar á meðal á síðustu sekúndu þegar hann kom sínum mönnum yfir á ný.
3. leikhluti (73-59)
Í byrjun leikhlutans fékk Derrick Allen sína 4 villu og sat því á bekknum þar til í næsta fjórðungi. Leikur Keflavíkur fór eilítið úr skorðum eftir það en Nick hélt uppteknum hætti og bar liðið áfram og skoraði 15 stig í leikhlutanum. Svo kom loks að því að Keflavíkurmaskínan hrökk í gang þar sem sóknirnar voru leiftursnöggar og vörnin setti í lás. Þar fór fremstur í flokki Sverrir Þór Sverrisson sem kom af bekknum og gaf gestunum engin grið. Forysta Keflavíkur jókst stórum á þessum kafla og fór allt upp í 15 stig.
4. leikhluti (99-88)
Í síðasta fjórðungi áttu Keflvíkingar orðið erfitt um vik í vörninni þar sem fjórir leikmenn þeirra voru í miklum villuvandræðum. Jón Norðdal fór fyrstur útaf með fimm villur eftir að hafa staðið sig óhemju vel gegn portúgölsku miðherjunum sem eru umtalsvert hærri og meiri um sig. Þá fór loks að sjást til stjörnuleikmanns Madeira, Nate Johnston og félaga hans Ken Leeks, sem fram að þessu hafði bara verið sóun á plássi á vellinum. Bradford fór svo útaf þegar 2 mínútur voru eftir með fimm villur en Keflvíkingar sýndu af sér mikla seiglu í lokin og héldu haus í sókninni og börðust af miklu kappi í vörninni þar sem fyrrnefndur Sverrir Þór fór fremstur í flokki. Undir lokin fór Falur Harðarson loks að láta til sín taka eftir að hafa átt misjafnan leik og skoraði mikilvægar körfur sem tryggðu sigur Keflvíkinga.
Falur Harðarson var í sjöunda himni í leikslok. „Þetta var bara helvíti gott! Við sýndum bara frábæran fókus í erfiðum leik. Menn voru greinilega með það á hreinu hversu mikilvægur þessi leikur er fyrir okkur. Það er líka alveg frábært að vera búinn að vinna tvo heimaleiki í röð og möguleikar okkar til að komast upp eru alveg prýðilegir ef við höldum áfram á sömu braut.“
Guðjón Skúlason tók í sama streng en var samt ekki 100% ánægður með leik sinna manna. „Við erum með betra lið en þeir og eigum að vinna þá án mikilla erfiðleika. En ég er sérstaklega ánægður með vörnina sem stóð sig mjög vel gegn svo mikið stærri leikmönnum.“ Aðspurður játaði Guðjón því að það væri erfitt að standa á hliðarlínunni í svona leik, „En ég stend bara hérna og garga mig hásan í staðinn“, sagði Guðjón og hló.
Talsvert var látið með Nate Johnston, einn besta leikmann Portúgalanna, í hérlendum fjölmiðlum, en hann var ekki sérstaklega skilvirkur í kvöld. Hann skoraði einungis 5 stig í fyrri hálfleik og það var að mestu leyti af vítalínunni. Í seinni hálfleik sást aðeins glitta í hann en það var aðallega vegna þess að Allen sat lungann úr hálfleiknum á bekknum vegna villuvandræða. Í viðtali við vf.is sagðist Johnston ekki vera sáttur við úrslitin. „Við vorum ekki að spila mjög vel, en Keflvíkingar eiga allan heiður skilinn því þeir komu til leiks og gerðu það sem til þurfti og unnu leikinn á endanum.“ Þegar hann var spurður út í möguleika Madeira á því að komast upp úr riðlinum var hann ennþá bjartsýnn. „Þetta er ekki búið. Keflavík á enn eftir að koma á okkar heimavöll og þeir fá ekki betri mótttökur þar en við fengum í kvöld.“
Stigahæstir Keflavíkur: Bradford (29 stig, 12 fráköst), Allen (18 stig) og Falur (16 stig)
Stigahæstir Madeira: Gimenez (20 stig, 4 þristar), Johnston (15 stig, 8 fráköst) og Termens (15 stig).
Maður leiksins: Nick Bradford Hann átti nær fullkominn leik þar sem hann hélt Keflavík inni í leiknum á tímabili og gekk ákaflega vel að finna körfuna. Hann hitti vel utan af velli eins og allt Keflavíkurliðið (65% úr 2ja stiga skotum), eða úr 14 af 19 skotum sínum í leiknum og var iðinn við fráköstin og leysti sínar varnarskyldur með sóma. Bradford hefur verið nokkuð gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í deildinni hér heima en Hann hefur átt óhemju góðu gengi að fagna í Evrópuleikjunum þremur sem hanmn hefur spilað og má þykja víst að ef hann fer að sína sömu takta í deildinni í vetur mega hin liðin fara að vara sig.
Keflavík er því efst í riðlinum eftir þrjá leiki með jafn mörg stig og Ovarense sem vann Toulon mjög óvænt í Frakklandi í kvöld 74-80, Keflavík er þó ofar á innbyrðisviðureignum. Næsti leikur Keflvíkinga er hins vegar heimaleikur gegn Toulon sem verður háður á miðvikudaginn 10. desember.