Keflavík sigrar í fyrsta leiknum
Keflavíkurstúlkur unnu í kvöld fyrsta leikinn gegn ÍS í úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik, 80-56. Staðan í leikhléi var 43-30 en í seinni hálfleik gerði heimaliðið gjörsamlega út um leikinn með frábærum varnarleik.
Keflavík byrjaði betur og skoraði fyrstu 6 stig leiksins, en Stúdínur komust inn í leikinn á ný og jöfnuðu 8-8. Leikurinn var tíðindalítill framan af þar sem hvorugt liðið var að finna taktinn í sókninni, en á lokamínútum fyrsta leikhluta fóru hlutirnir loks að ganga.
ÍS komst yfir í upphafi annars leikhluta, 18-20 og var leikurinn eftir það nokkuð jafn. Þegar fjórðungurinn var hálfnaður og staðan 28-27 settu heimastúlkur hins vegar í lás í vörninni og hrukku í gang í sókninni. Þetta reyndist vendipunkturinn í leiknum þar sem Keflavík náði afgerandi forystu fyrir hálfleik og sigurinn var aldrei í hættu.
Í seinni hálfleik var vörnin þétt og munurinn jókst hægt og bítandi og var mestur 25 stig á lokakaflanum.
Þannig halda Keflvíkingar í annan leikinn með einn sigur í farteskinu, en þrjá þarf til að vinna titilinn, og ef þær spila líkt og í kvöld verður erfitt fyrir Stúdínur að finna mótleik.
„Þessi sigur er góð byrjun hjá okkur“, sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari, og þakkaði sérstaklega góðri vörn hvernig til tókst og bætti við: „Nú verða stelpurnar að vera rólegar og anda djúpt því næsti leikur er alveg jafn mikilvægur.“
Stigahæstar:
Kefl: Erla Þorsteindóttir 22, Anna María 14/15/9, Erla Reynisdóttir 14, Birna 11, Marín 10.
ÍS: Alda Leif Jónsdóttir 10.