Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík sigrar í framlengdum háspennuleik
Laugardagur 2. apríl 2005 kl. 19:46

Keflavík sigrar í framlengdum háspennuleik

Keflavík færði sig feti nær Íslandsmeistaratitlinum í körfuknattleik með sigri á Grindavík, 87-89, í framlengdum leik.

Leikurinn var afar jafn í fyrsta leikhluta þar sem liðin skiptust á að skora. Góður kafli hjá Keflavík tryggði þeim hins vegar 8 stiga forskot eftir leikhlutann, 17-25.

Grindvíkingar náðu sér þá á strik í upphafi næsta leikhluta og notfærðu sér mistök í sóknarleik Keflavíkur. Þær söxuðu smátt og smátt á forskotið og komust yfir skömmu fyrir hálfleik. Þær voru einráðar á síðustu mínútunum og leiddu, 44-37, er liðin héldu inn í klefa.

Rita Williams hafði leikið afar vel í fyrri hálfleiknum, en Erlurnar stóðu einnig fyrir sínu. Hjá Keflavík voru það Alex Stewart og Anna María Sveinsdóttir, sem lék sinn 500 leik frá upphafi, sem sköruðu framúr.

Góð vörn í upphafi seinni hálfleiks, ásamt því að Birna Valgarðsdóttir datt í gang í sókninni, kom Keflavík aftur inn í leikinn. Gestirnir náðu fluginu um miðjan 3. leikhluta þar sem þær skoruðu 11 stig í röð og voru komnar með þægilega forystu, 50-57 áður en Erla Þorsteinsdóttir svaraði fyrir Grindavík.

Fyrir lokakaflann var staðan 58-67 fyrir Keflavík, en grimmur varnarleikur skilaði Grindavík nokkrum auðveldum körfum. Erla Reynisdóttir fór af velli með 5 villur þegar 6 mínútur lifðu af leik og óttuðust margir að þar gætu orðið straumhvörf í leiknum. Svo reyndist ekki vera því Grindvíkingar skoruðu næstu 7 stig og náðu forystunni á ný, 73-72. Allt varð vitlaust í húsinu á þeim tíma þar sem stuðningsmenn liðanna hvöttu sín lið áfram.

Lokakafli 4. leikhluta einkenndist af mistökum hjá báðum liðum, en Keflavík hafði naumt forskot. Anna María jók muninn í 3 stig, 78-81, þegar 25 sekúndur voru eftir, en Rita Williams hitti úr ótrúlegu 3ja stiga skoti þegar 5 sek voru eftir og jafnaði leikinn. Keflavík náði ekki að nýta sér þann tíma sem var eftir og varð því að grípa til framlengingar.

Þar skoraði Stewart fyrstu fimm stigin fyrir Keflavík, en Grindvíkingar fóru illa með nokkur dauðafæri.  Þær háldu þó spennu í leiknum fram á síðustu sekúndur, en 3ja stiga skot Ritu hrökk af hringnum. Svandís Sigurðardóttir náði frákastinu og fékk 2 vítaskot þegar ein sekúnda var eftir og staðan var 86-89. Fyrra vítið fór ofan í en Birna Valarðsdóttir náði frákastinu frá því seinna og leiktíminn leið út. Lokatölur 87-89 eftir frábæran leik og Keflavík getur tryggt sér titilinn á heimavelli nk. miðvikudag.

VF-Myndir/Hilmar Bragi og Jón Björn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024