Keflavík sigraði Stjörnuna
Keflavík vann sinn fimmta leik í röð gegn Stjörnunni í Domino´s- deild kvenna í körfu um helgina. Lið Keflavíkur virðist því vera komið á nokkuð gott skrið eftir brösótta byrjun, enda ríkjandi Bikar- og Íslandsmeistarar. Lokatölur leiksins urðu 97-76 fyrir Keflavík. Brittanny Dinkins heldur áfram að slá í gegn í liði Keflavíkur en hún átti meðal annars 18 stoðsendingar í leiknum. Lið Keflavíkur var öflugt og hitti liðið úr nærri 70% skota sinna í leiknum innan teigs og er liðið komið í annað sæti deildarinnar og sækir fast á hæla Vals.
Stigahæstu leikmenn Keflavíkur voru, Brittanny Dinkins með 24 stig, 9 fráköst og 18 stoðsendingar, Thelma Dís Ágústdóttir með 19 stig og 7 fráköst, Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 12 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar og Birna Valgerður Benónýsdóttir með 10 stig og 4 fráköst.