Keflavík sigraði Íslandsmeistarana
Keflavík mætti KR í Domino´s-deild karla í körfu í kvöld og mætti liðið ákveðið til leiks í kvöld eftir að hafa tapað gegn botnliði Hattar í síðustu umferð.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur sagði í samtali við Vísir.is að hópurinn hafi verið tilbúinn að leggja sig fram og að fáir hafi haft trú á þessu nema þeir sjálfir.
„Við sýndum það frá upphafi að það var virkileg trú í mannskapnum. Við vissum að við myndum misnota einhver skot en við reyndum að undirbúa okkur í að fara bara í það næsta sem skiptir máli. Mér fannst við sýna það að hópurinn var tilbúinn í að leggja sig fram og gera þetta saman og gefa okkur tækifæri á því að fara héðan með sigur.“, sagði Friðrik Ingi.
Eftir leik kvöldsins er Keflavík í 8. sæti með 18 stig.
Stigahæstu leikmenn Keflavíkur voru Christian Dion Jones með 20 stig og 11 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson með 13 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar, Magnús Már Traustason með 11 stig og Daði Lár Jónsson með 10 stig og 4 fráköst.