Keflavík sigraði í toppslagnum
Keflavík settist á topp 1. deildar kvenna í körfuknattleik þegar þær sigruðu Grindavík 54-71 í kvöld. Leikurinn sem fram fór í Grindavík var jafn og spennandi fram að hálfleik en í þeim síðari tóku gestirnir völdin þar sem Birna Valgarðsdóttir og Reshea Bristol gerðu mikinn usla.
Í byrjun leiks voru bæði lið að spila mjög góða vörn en fyrstu stig leiksins litu ekki dagsins ljós fyrr en tvær og hálf mínúta voru liðnar. Grindavíkurstúlkur virtust vera svolítið skelkaðar í byrjun og töpuðu þær boltanum 17 sinnum í fyrri hálfleik. Nokkuð jafnvægi virtist þó vera í leiknum og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 26-31 Keflavík í vil.
Í seinni hálfleik hófu Keflavíkurstúlkur að spila svæðisvörn og Grindvíkingum misfórst að halda í við meistarana og 17 stiga ósigur heimamanna því staðreynd. Henning Henningsson nýráðinn þjálfari Grindavíkur stjórnaði liðinu í fyrsta sinn í kvöld eftir að Örvar Kristjánsson var látinn fara.
Reshea Bristol var atkvæðamest í liði Keflavíkur með 26 stig, 7 stolna bolta og 8 fráköst. Birna Valgarðsdóttir gerði 21 stig og tók 4 fráköst. Í liði Grindavíkur var Sólveig Gunnlaugsdóttir með 17 stig og 6 fráköst en Svandís Sigurðardóttir gerði 11 stig og tók 17 fráköst.
Keflavíkurstúlkur eru nú í efsta sæti 1. deildar með 8 stig og var Sverrir Þór Sverrisson þjálfari liðsins sáttur í leikslok: „Við vorum að spila góða vörn mest allan leikinn og ég er mjög ánægður með það, þrátt fyrir að hafa unnið þá vorum við ekki að spila okkar besta leik,“ sagði Sverrir. Keflavík leikur næst gegn KR þann 9. nóvember en Grindavík á næsta leik gegn ÍS þann áttunda.
VF-myndir/ Jón Björn: Á efri myndinni ræðst Birna Valgarðsdóttir að körfu Grindavíkur en á þeirri neðri verst Erla Þorsteinsdóttir sóknartilburðum Bryndísar Guðmundsdóttur