Keflavík sigraði í Ljónagryfjunni
Njarðvík tók á móti grönnum sínum frá Keflavík í Ljónagryfjunni í Dominos deild kvenna. Nokkuð jafnt var með liðunum en Keflavík var ögn sterkara, bæði sóknar- og varnarlega og sigraði leikinn, 65-71.
Keflavík byrjaði betur og komst í ellefu stiga forskot, 2-13 en Njarðvíkingar vöknuðu þá til lífsins og söxuðu á forskotið. Mikil barátta var í leiknum og ljóst að leikmenn voru að gefa sig alla í baráttuna um Reykjanesbæ. Staðan í hálfleik var 26-37 Keflvíkingum í vil. Keflavík hélt áfram að leiða leikinn í seinni hálfleik og spiluðu hraðan bolta, en Njarðvík náði að minnka muninn niður í 3 stig, 48-51 í þriðja fjórðungi. Njarðvíkingar áttu flotta kafla en voru að hitta illa í heildina, tóku samtals 97 2ja og 3ja stiga skot en hittu aðeins úr 20. Liðsheild Keflvíkinga var það sem skilaði þeim sigrinum í dag. Lokatölur voru eins og fyrr segir, 65-71.
Carmen Tyson-Thomas skoraði 30 stig fyrir Njarðvík og tók heil 22 fráköst og Júlía Scheving Steindórsdóttir kom sterk inn af bekknum og skilaði 12 stigum og 8 fráköstum.
Hjá Keflavík var Emelía Ósk Gunnarsdóttir með 14 stig og 11 fráköst og Thelma Dís Ágústsdóttir var með 11 stig og 9 fráköst.