Keflavík sendir tvo hópa á Íslandsmótið
Um helgina fer Íslandsmótið í hópfimleikum fram í Versölum í Kópavogi. Keppt verður föstudaginn 9. mars og laugardaginn 10. mars. Hópfimleikamót eru veisla fyrir augað og ávallt mikið um að vera og mótin ganga hratt fyrir sig og eru keyrð áfram með stuðtónlist sem hrífur áhorfendur með.
Á Íslandsmóti keppa einungis bestu liðin sem gera erfiðustu stökkin. Meðal keppenda nú eru Gerplustúlkur sem lentu í öðru sæti á Evrópumótinu í hópfimleikum í haust og blandað lið stúlkna og drengja, fyrrum landsliðskeppenda og er þar helsta að nefna Sif Pálsdóttur Norðurlandameistara í áhaldafimleikum. Fimleikadeild Keflavíkur verður með tvo hópa í mótinu sem er eftirtektarvert því erfitt er að komast inn á mót af þessu tagi.
Keppnin fer fram á tveimur dögum:
Föstudagur 9.mars kl. 18:30 – 19:40
Keppni þeirra hópa í TeamGym sem áunnið hafa sér rétt til þátttöku á Íslandsmóti: Ármann, Fylkir, Gerpla P1, Gerpla P2, Selfoss, Stjarnan/Björk. Keppt eru um Íslandsmeistaratitil á hverju áhaldi. Efstu þrú liðin samanlagt öðlast rétt til keppni seinni daginn.
Laugardagur 10.mars kl. 15:30 – 16:30
Úrslit í TeamGym. Efstu þrjú kvennaliðin frá deginum áður og tvö mixed-lið (helmingur stúlkur- helmingur piltar) keppa um Íslandsmeistaratitil í samanlögðum stigum.
Laugardagur 10.mars kl. 11:30-12:40
Áhaldaúrslit í Landsreglum. 7 lið á hverju áhaldi.