Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík rústar Grindavík
Laugardagur 20. nóvember 2004 kl. 20:11

Keflavík rústar Grindavík

Keflavík tryggði sér sæti í úrslitum Hópbílabikars kvenna með stórsigri á Grindavík, 83-41.

Sigurinn var afgerandi og öruggur eins og lokatölur leiksins gefa til kynna, en staðan eftir fyrsta leikhluta var 24-5.
Í hálfleik var staðan 38-14 og átti enn eftir að syrta í álinn fyrir Grindvíkinga sem áttu ekkert svar við vörn Keflavíkur.

Þriðji leikhluti fór 34-9 fyrir Keflavík og staðan orðin 72-23. Þar sem sigurinn var löngu kominn í höfn leyfðu þær sér að stíga af bensíninu og Grindvíkingar minnkuðu muninn í 42 stig.

Keflavík mætir ÍS í úrslitum um næstu helgi og verður fróðlegt að sjá hvernig Stúdínum reiðir af gegn þeim fítonskrafti sem virðist búa í Keflavíkurstúlkum þessa dagana.

„Við erum að spila frábæra vörn sem skilar okkur auðveldum körfum. Við erum sífellt að reyna að bæta okkar leik og verðum tilbúin gegn ÍS um næstu helgi.“ Sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur í leikslok.

„Við áttum bara ekki séns í þetta,“ sagði Henning Henningsson hjá Grindavík. „Við misstum þetta úr höndunum á fyrstu mínútunum og leyfðum þeim að taka sóknarfráköstin. Þegar þær eru komnar á bragðið er erfitt að stöðva þær. Ef við ætlum að fá eitthvað út úr leikjum við Keflavík þurfum við að vera tilbúnar allt frá fyrstu mínútu.“

Tölfræði leiksins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024