Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík rótburstaði lærisveina Guðjóns
Fimmtudagur 22. mars 2007 kl. 21:45

Keflavík rótburstaði lærisveina Guðjóns

Bikarmeistarar Keflavíkur í knattspyrnu gerðu sannkallaða glæsiför upp á Skipaskaga í kvöld er þeir mættu ÍA í Lengjubikarnum í knattspyrnu. Keflavík rótburstaði leikinn 1-6 og var staðan 4-0 í hálfleik. Lærisveinar Guðjóns Þórðarsonar sáu aldrei til sólar í leiknum og ljóst að Keflvíkingar ætla sér að mæta grimmir inn í sumarið. Jónas Guðni Sævarsson, fyrirliði Keflavíkur, var að vonum kátur með leikinn í kvöld og sagði sigurinn góðann og sér í lagi eftir slæmt tap gegn KR í síðasta leik.

 

„Ég er mjög sáttur við þennan leik og við vorum ákveðnir í því eftir tapið gegn KR að gleyma bara þeim leik og standa okkur vel gegn ÍA. Gangurinn í Keflavíkurliðinu er fínn um þessar mundir og við höfum verið í stífum æfingum,“ sagði Jónas. Keflvíkingar halda til Spánar þann 11. apríl næstkomandi í æfingaferð og munu dvelja þar í eina viku.

 

Guðmundur Steinarsson gerði tvö mörk fyrir Keflavík í kvöld en önnur mörk leiksins gerðu þeir Guðjón Árni Antoníusson, Marco Kotilainen, Stefán Örn Arnarson og Baldur Sigurðsson. Hjá ÍA var það Björn Bergmann sem gerði eina mark heimamanna.

 

Næsti leikur Keflavíkur í Lengjubikarnum er þann 29. mars þegar þeir mæta Fram í Egilshöll.

 

VF-mynd/ Úr safni-Guðmundur var á skotskónum í kvöld sem og allt Keflavíkurliðið.

 

[email protected]

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024