Keflavík og Tindastóll mætast í oddaleik fyrir norðan á páskadag
Úr varð hörkuviðureign þegar Keflvíkingar tryggðu sér oddaleik á móti Tindastóli í úrslitakeppni Subway-deildar karla í Blue-höllinni í kvöld. Eftir frábæran fyrri hálfleik Keflvíkinga sem leiddu með þrettán stigum (47:34) neituðu norðanmenn að gefast upp og náðu að hleypa spennu í leikinn á ný. Keflavík var þó sterkari aðilinn og unnu verðskuldað með fimmtán stigum (91:76).
Keflavík - Tindastóll 91:76
(21:19, 26:15, 18:19, 26:23)
Baráttan var í fyrirrúmi hjá báðum liðum í kvöld en það voru Keflvíkingar sem voru örlítið grimmari og það skilaði sér í góðum sigri. Fyrsti leikhluti var mjög jafn en Keflvíkingar settu nítróið í gang í öðrum leikhluta, léku frábærlega og náðu að byggja þrettán stiga forystu fyrir seinni hálfleik (47:34).
Etir ágætis þriðja leikhluta voru hlutirnir farnir að líta mjög vel út fyrir heimamenn sem höfðu í fullu tré við Stólana og staðan 65:53, tólf stiga munur fyrir síðasta leikhlutann. Sauðkræklingar spýttu hins vegar vel í lófana og keyrðu á Keflvíkinga af offorsi sem hikstuðu um tíma. Tindastóll náði að saxa á forskotið og ná því niður í aðeins tvö stig (75:73). Þá sögðu Keflvíkingar stopp og tóku tólf stiga rispu (87:73) þar sem m.a. Valur Orri Valsson og Mustapha Heron settu niður mikilvæga þrista. Eftir það sigldu Keflvíkingar mikilvægum sigri í örugga höfn og það má búast við svakalegum oddaleik á sunnudag.
Keflavík: Mustapha Jahhad Heron 27/4 fráköst/3 varin skot, Dominykas Milka 15/12 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/8 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 14/6 fráköst, Darius Tarvydas 10/6 fráköst, Jaka Brodnik 5, Ágúst Orrason 3, Halldór Garðar Hermannsson 3, Magnús Pétursson 0, Reggie Dupree 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Arnór Sveinsson 0.
Valur Orri Valsson var í spjalli við vefmiðilinn Karfan.is eftir leik og má sjá viðtalið í spilaranum hér að neðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og tók meðfylgjandi myndir.