Keflavík og Njarðvík semja við frábæra leikmenn
Keflvíkingar og Njarðvíkingar í körfunni halda áfram að semja við sína bestu leikmenn í vetur. Keflvíkingar voru að klára undirskrift við Deane Williams um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Hann var einn af bestu leikmönnum liðsins á leiktíðinni sem lauk svo skyndilega áður en úrslitakeppnin fór fram.
„Það þarf ekki að taka fram hversu ánægð við erum að halda þessum eðalleikmanni og sómapilt. Deane átti afar gott tímabil og gladdi augu áhorfenda oft og títt með glæsilegum tilþrifum. Frábærar fréttir fyrir okkur og fyllumst tilhlökkun að sjá liðið spila aftur þó langt sé í það,“ segir á Facebook síðu Keflvíkinga.
Njarðvíkingar eru líka með pennann á lofti því þeir voru að semja við einn sinn besta leikmann í vetur, framherjann Mario Matasovic. Hann gerði nýjan tveggja ára samning við þá grænu.
„Við erum afar ánægð með að hafa Mario með okkur næstu tvö árin en hann hefur fyrir löngu unnið hug okkar og hjörtu í Njarðvík með framgöngu sinni inni á vellinum og ekki skemmir nú fyrir að hann er fyrirmyndar eintak í alla staði,” sagði Brenton Birmingham varaformaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur þegar nýr samningur við Mario var undirritaður, á heimasíðu UMFN.