Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

  • Keflavík og Njarðvík með mikilvæga sigra
    Elvar Már átti góðan leik í gær
  • Keflavík og Njarðvík með mikilvæga sigra
    Gunnar Einarsson og Guðmundur Jónsson þjarma að Sigurði Þorvaldssyni í gær
Þriðjudagur 10. mars 2015 kl. 09:43

Keflavík og Njarðvík með mikilvæga sigra

Öll Suðurnesjaliðin örugg í úrslitakeppnina

Keflavík og Njarðvík áttu bæði gott kvöld í gærkvöldi þegar liðin báru sigurorð af Snæfelli og Stjörnunni í mikilvægum leikjum í næst síðustu umferð Domino´s deildar karla.

Liðsmenn Keflavíur ætluðu greinilega að selja sig dýrt, börðust um hvern lausan bolta og leiddu eftir fyrsta leikhluta 23-13. Eitthvað misstu þeir dampinn í öðrum leikhluta og Snæfell komst betur inn í leikinn og munaði 5 stigum á liðunum í hálfleik, 50-45.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í þeim síðari komu heimamenn dýrvitlausir til leiks og varnarleikurinn minnti óneitanlega á gamla tíma í TM höllinni. Snæfellingar fengu ekkert gefins og tóku þvinguð skot sem oftar en ekki misstu marks. Keflvíkingar lét kné fylgja kviði og sóknarleikurinn fylgdi með. Þeir sigldu svo öruggum 95-83 sigri í hús og gerðu þar með út um vonir Snæfells um að komast í úrslitakeppnina þetta árið.

Damon Johnson var frábær í liði Keflavíkur, skoraði 23 stig og tók 10 fráköst þrátt fyrir að spila aðeins 28 mínútur í kvöld. Þá var Davon Usher öflugur að vanda með 21 stig. Maður leiksins var þó varnarleikur Keflvíkinga sem að slökkti hreinlega í Snæfelli á löngum köflum í leiknum en Keflvíkingar rúlluðu á 11 mönnum sem allir virtust tilbúnir í verkefnið.

Í Njarðvík var endurkomu Elvars Más Friðrikssonar beðið með mikilli eftirvæntngu þegar heimamenn tóku á móti Stjörnunni. Ekki byrjaði leikurinn byrlega fyrir Njarðvík þar sem að Stjarnan hóf leik með 0-8 áhlaupi og fátt í leik Njarðvíkinga sem bar þess merki að þeir ætluðu að berjast fyrir sigri en Njarðvíkingar hafa átt erfitt uppdráttar á heimavelli sínum í vetur.

Njarðvíkingar náðu þó tökum á leiknum í 2. fjórðung og með grimman varnarleik í farteskinu ásamt því að keyra fast á vörn Stjörnunnar tókst þeim að slíta sig frá gestunum og búa til forystu sem gestirnir náðu aldrei að brúa. Lokatölur 101-88 fyrir Njarðvík.

Stefan Bonneau sýndi mögnuð tilþrif í Ljónagryfjunni á báðum endum vallarins en óhætt er að segja að þeir sem borguðu sig inn hafi fengið miða á loftfimleikasýningu í kaupbæti. Bonneau endaði leik með 41 stig, sem þykir nokuð eðlilegt á þeim bænum, 9 stoðsendingar og 8 fráköst. Þá átti Logi Gunnarsson (18 stig) og Mirko Virijevic (14 stig/14 fráköst) mjög góðan leik.

Elvar Már Friðriksson spilaði í tæpar 18 mínútur fyrir Njarðvík og skilaði 10 stigum og 4 stoðsendingum á þeim tíma en framlag hans í varnarleiknum var mikið í baráttuglöðu Njarðvíkurliði.

Þar með er ljóst að öll Suðurnesjaliðin verða með í úrslitakeppninni í ár en það mun þó ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni, sem spiluð verður á fimmtudagskvöld, hvernig lokaniðurröðun verður og hverjir mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.