Keflavík og Njarðvík mætast í undanúrslitum Hópbílabikarsins
Keflavík tryggði sér þátttökurétt í undanúrslitum Hópbílabikarsins er þeir lögðu ÍR að velli í Sláturhúsinu, 98-79. Keflavík sigraði því þessa tveggja leikja rimmu 142-207 eða með 65 stiga mun. Gunnar Einarsson og Jón N. Hafsteinsson léku ekki með í dag en Nick nokkur Bradford var mættur á ný til leiks með sínum gömlu félögum og átti hann skínandi góðan leik.
ÍR-ingar mættu til leiks 46 stigum undir og þegar svo er í pottinn búið í Sláturhúsinu þá er sólin víðsfjarri. Keflavík var alltaf skrefinu á undan ÍR-ingum í leiknum en gestirnir náðu að minnka muninn niður í þrjú stig í 3. leikhluta en lengra komust þeir ekki og Keflavík sigraði með 19 stiga mun.
Nick Bradford var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 27 stig, 11 fráköst og 5 stolna bolta. Allir leikmenn Keflavíkur spiluðu meira en 10 mínútur í leiknum og komust þeir allir á blað. Í liði ÍR var Grant Davis stigahæstur með 28 stig og 22 fráköst.
„Ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur til Keflavíkur og get vart beðið eftir því að spila í Evrópukeppninni,“ sagði Nick Bradford í samtali við Víkurfréttir.
„Þetta var öruggur sigur því ÍR kom 46 stigum undir í leikinn,“ sagði Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur. Aðspurður sagði Sigurður að nú færi öll orkan og einbeitningin í Evrópuleikina sem framundan eru.
Grindavík og Snæfell mætast í undanúrslitum Hópbílabikarsins en Keflavík mætir Njarðvík og þar verður án efa mikill barningur. „Keflavík og Njarðvík eru án efa tvö yfirburðalið í dag og það verður virkilega spennandi að fara í þessa rimmu,“ sagði Sigurður Ingimundarson að lokum.
VF-mynd/ úr safni