Keflavík og Njarðvík komust auðveldlega í undanúrslitin
Keflavík og Njarðvík unnu sína leiki í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í körfuknattleik sem voru leiknir í kvöld. Keflavík vann sigur á Haukum á Ásvöllum en Njarðvík lagði lið Hamars/Þórs í Ljónagryfjunni, Grindavík var þegar búið að tryggja sér farseðil í undanúrslitin með góðum sigri á Val í gær.
Njarðvík - Hamar/Þór 92:72
Njarðvík átti ekki í teljandi vandræðum með fyrstudeildarlið Hamars/Þórs í kvöld. Þótt talsvert jafnræði hafi verið á með liðunum í fyrsta leikhluta sýndu Njarðvíkingar yfirburði sína í þeim næsta. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 21:20 en annar leikhluti fór 33:15 fyrir Njarðvík sem leiddi með nítján stigum í hálfleik (54:35).
Seinni hálfleikur var öllu jafnari en ungt lið gestanna reyndi að klóra í bakkann og minnkaði muninn í átta stig í fjórða leikhluta (73:65). Það var spart í afturendann á Njarðvíkingum sem skoruðu þá sjö stig, breyttu stöðunni í 80:65 og gerðu vonir gestanna að engu.
Lokatölur 92:72, tuttugu stiga sanngjarn sigur.
Selena Lott var stigahæst Njarðvíkinga með 22 stig, þar á eftir komu Jana Falsdóttir með sautján stig, Emilie Hesseldal með sextán og Eva Viso með fimmtán stig.
Haukar - Keflavík 57:91
Keflvíkingar byrjuðu gríðarlega vel á móti Haukum og náðu þrettán stiga forystu í fyrsta leikhluta (11:24) og juku muninn í sautján stig áður en blásið var til hálfleiks (30:47).
Haukar voru augljóslega ekki að eiga sinn besta dag því Keflavík yfirspilaði þær og munurinn jókst bara eftir því sem leið á leikinn. Að lokum höfðu Keflvíkingar öruggan 34 stiga sigur (57:91) og eru komnar í undanúrslitin.
Sara Rún Hinriksdóttir var komin í raðir Keflvíkinga að nýju og hún var stigahæst í kvöld með sautján stig. Thelma Ágústsdóttir gerði fjórtán stig, Daniela Wallen þrettán, Emilía Gunnarsdóttir ellefu og þær Anna Ingunn Svansdóttir og Birna Valgerður Benónýsdóttir tíu stig hvor.
Valur - Grindavík 49:61
Grindvíkingar héldu á Hliðarenda í gær þar sem þær mættu Valskonum. Grindavík fór betur af stað og náði forystu í fyrsta leikhluta (12:18). Þær héldu áfram að þjarma að heimakonum fram að hálfleik og leiddu með ellefu stigum þegar gengið var til klefa (26:37).
Seinni hálfleikur var tiltölulega jafn en Grindavík gætti þess að hleypa Valskonum ekki nærri sér og lönduðu sætum tólf stiga sigri að lokum (49:61).
Eva Braslis gerði tuttugu stig fyrir Grindavík í leiknum, Sarah Mortensen tólf, Danielle Rodriguez ellefu og Alexandra Sverrisdóttir níu stig.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, tók stutt viðtal við Rúnar Inga Erlingsson, þjálfara Njarðvíkur, eftir leik Njarðvíkinga og Hamars/Þórs.