Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 22. nóvember 2003 kl. 00:00

Keflavík og Njarðvík í úrslit!

Í gærkvöldi fóru leikir í undanúrslitum Hópbíkabikarkeppni karla fram í Laugardalshöllinni. Keflavík og Njarðvík unnu sína leiki og leika því til úrslita í dag.

 

NJARÐVÍK-GRINDAVÍK

 

Njarðvík komst í úrslit með því að sigra Grindavík í framlengdum leik, 87-86.

Njarðvíkingar virtust í fyrstu ekki hafa mætt til leiks á skotskónum en sóttu þó í sig veðrið eftir því sem leið á fyrsta leikhluta. Grindavík missti frumkvæðið í leiknum í öðrum leikhluta þegar ekkert gekk í sókninni hjá þeim á tímabili. Njarðvík hélt forystunni þar til í síðasta leikhluta þegar Grindvíkingar tóku sig loksins saman í andlitinu og náðu yfirhöndinni. Þeir höfðu kjörið tækifæri til þess að gera út um leikinn en misstu boltann þegar 16 sekúndur voru eftir og staðan jöfn. Njarðvík náði ekki að færa sér það í nyt þannig að grípa þurfti til framlengingar. Í framlengingunni tóku Grindvíkingar forystuna en þá hrökk Páll nokkur Kristinsson í gang og gerði út um leikinn og tryggði sínum mönnum nauman sigur að lokum.

 

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur var að vonum ekki sáttur við sína menn. „Ég er bara gríðarlega ósáttur! Við vorum alls ekki að spila vel. Við vorum ekki nógu áræðnir í sókninni en við sýndum þó góðan karakter með því að vinna upp muninn og með agaðri leik hefðum við getað klárað þetta“.

Friðrik Ragnarsson hjá Njarðvík var öllu sáttari við leikinn. „Við spiluðum vel í kvöld. Við slökuðum samt of mikið á og leyfðum þeim að komast aftur inn í leikinn en ég var glaður að strákarnir héldu haus og þjöppuðu sér aftur saman í vörninni eftir að missa leikinn næstum frá sér.“ Hann bætti því við að Grindavík væri með gott lið og þetta hefði getað lent hvoru megin sem var.

 

Stigahæstir hjá Grindavík: Darrel Lewis (25 stig, 15 fráköst), Páll Axel Vilbergsson (22 stig) og Daniel Trammel (14 stig, 16 fráköst)

Stigahæstir hjá Njarðvík: Páll Kristinsson (19 stig) , Brandon Woudstra (17 stig)og Friðrik Stefánsson (14 stig). Þá átti hinn ungi og efnilegi (og risastóri) Egill Jónasson stórleik í vörninni þar sem hann varði 9 skot.

 

Tölfræði 

 

 

KEFLAVÍK-TINDASTÓLL

 

Keflvíkingar áttu ekki í erfiðleikum með Kristinn Friðriksson og lærisveina hans í Tindastóli. Þeir unnu öruggan sigur á Stólunum, sem sáu aldrei til sólar í leiknum, 126-101. Keflavík náði tökum á leiknum í fyrsta leikhluta þegar Allen, Bradford, og Norðdal hreinlega áttu gólfið. Allen og Bradford léku eins og englar í sókninni á meðan Jón Norðdal lét mikið að sér kveða í vörninni. Í öðrum leikhluta gerðu Keflvíkingar út um leikinn þegar Magnús Þór Gunnarsson stimplaði sig inn ásamt því að Allen hélt uppteknum hætti.

Í hálfleik var munurinn 25 stig þannig að Guðjón og Falur sáu sér kleift að leyfa fleirum að spreyta sig. Gunnar Stefánsson átti góða innkomu og eins Sverrir Sverrisson en leikurinn fjaraði út í síðasta leikhluta og var orðinn eins og þriggja stiga æfingu hjá Keflavík.

 

Guðjón Skúlason var hæstánægður með leik sinna manna. „Við vorum að spila mjög vel, sérstaklega í sókninni, og unnum leikinn eiginlega í fyrri hálfleik. Vörnin hjá okkur var samt ekkert frábær en strákarnir sáu um að loka á þeirra góðu menn og halda þeim í skefjum. Nú erum við bara tilbúnir í Njarðvíkinga á morgun. Þetta verður örugglega toppleikur eins og alltaf þegar liðin mætast. Þá fáum við að spila við alvörulið.“

 

Magnús Þór átti frábæran leik og var stigahæstur sinna manna með 32 stig og hitti úr 8 af 12 þriggja stiga skotum sínum. Næstir komu Allen (29 stig) og Bradford (25 stig).

Hjá Tindastóli var Nick Boyd bestur, en hann skoraði 27 stig og tók 13 fáköst. Þar á eftir kom Clifton Cook sem setti 17 stig og gaf 10 stoðsendingar.

 

Tölfræði 

 

Í dag, laugardag, mætast því erkiféndurnir Keflavík og Njarðvík í úrslitaleik sem enginn körfuboltaunnandi má missa af. Leikurinn fer fram í Laugardalshöll eins og undanúrlitaleikirnir og hefst hann kl. 16.30

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024