Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík og Njarðvík fóru létt áfram í bikarnum
Daniela Wallen Morino átti stórgóðan leik í kvöld.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 17. október 2021 kl. 21:51

Keflavík og Njarðvík fóru létt áfram í bikarnum

Keflavík og Njarðvík léku í 32 liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfuknattleik í kvöld. Keflvíkingar slógu Íslandsmeistara Vals úr leik og Njarðvík átti ekki í vandræðum með Vestra á Ísafirði.

Valur - Keflavík 44:78

(15:22, 10:18, 5:22, 14:16)

Keflavík hafði yfirhöndina allan leikinn gegn Val og leiddi með  fimmtán stigum í hálfleik. Í þriðja leikhluta fóru Keflvíkingar algerlega á kostum og skoruðu 22 stig gegn aðeins fimm stigum Vals. Yfirburðarsigur í Origo-höllinni og Keflavík mætir Fjölni í sextán liða úrslitum.

Daniela Wallen Morino er mætt til leiks, hún gerði 21 stig, tók 14 fráköst og átti sjö stoðsendingar. Bæði Anna Ingunn Svansdóttir (15/3/1) og Katla Rún Garðarsdóttir (11/0/3) áttu fínan leik eins og megnið af Keflavíkurliðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vestri - Njarðvík 46:87

(12:22, 5:18, 11:19, 18:28)

Sama var upp á teningnum á Ísafirði þar sem Njarðvík tók forystuna í byrjun leiks þegar Aliyah A'taeya Collier setti niður tvo þrista og kom Njarðvíkingum í 0:6. Eftir það leyfðu Njarðvíkingar gestgjöfunum aldrei inn í leikinn og unnu sannfærandi sigur. Njarðvík mætir Skallagrími í sextán liða úrslitum.

Eva María Lúðvíksdóttir sýndi hvers hún er megnug og gerði nítjánn stig, tók fimm fráköst og átti þrjár stoðsendingar. Diane Diene (15/9/2) og Aliyah A'taeya Collier (15/3/4) gerðu sín hvor fimmtán stigin fyrir Njarðvík sem fer aldeilis vel af stað á tímabilinu, eru taplausar í deild og bikar.

Collier opnaði leikinn með tveimur þristum.