Keflavík og KR með örugga sigra
Sláturhúsið bar nafn með rentu í kvöld þegar Keflavík gjörsigraði Snæfell, 111-82 í Dominos deild karla í körfubolta. Grindvíkingar heimsóttu KR í DHL höllina og töpuðu 87-62.
Keflavík 111 - 82 Snæfell
Snæfell leiddi með 8 stigum eftir fyrsta fjórðung en eftir það tóku Keflvíkingar sig all hressilega á, náðu forystunni og juku hana smám saman út leikinn. Stigahæstir hjá Keflavík voru Amin Stevens með 32 stig og 15 fráköst, Ágúst Orrason með 22 stig og 4 stoðsendingar og Guðmundur Jónsson var með 22 stig, 5 fráköst og 5 stolna bolta. Hjá Snæfelli var Sefton Barrett bestur með 24 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar og Viktor Marínó Alexandersson var með 15 stig og 4 stoðsendingar.
KR 87 - 62 Grindavík
Grindvíkingar mættu daufir til leiks, gekk illa að skora og skildu 27 stig liðin að í hálfleik, 47-20. KR-ingar hvíldu lykilmenn sína talsvert í seinni hálfleik og leyfðu yngri leikmönnum að spreyta sig. Stigahæstur Grindvíkinga var Lewis Clinch með 23 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar og Þorsteinn Finnbogason var með 10 stig og 5 fráköst. Hjá KR var Brynjar Þór Björnsson með 22 stig og 5 stoðsendingar og Cedrick Bowen með 18 stig og 7 fráköst.