Keflavík og Grindavík vinna í háspennuleikjum
Keflavík og Grindavík tryggðu sér sæti í undanúrslitum Intersport deildarinnar í kvöld eftir mikla spennuleiki. Keflvíkingar lögðu Tindastól 98-96 og Grindavík vann KR 89-84.
Þannig er ljóst að liðin mætast í næstu umferð og verður fyrsti leikurinn á heimavelli Grindvíkinga. Njarðvík mun hins vegar mæta deildarmeisturum Snæfells.
KEFLAVÍK-TINDASTÓLL
Keflvíkingum brást bogalistin þegar liðin mættust á Króknum um síðustu helgi og urðu að vinna Tindastól til að komast áfram í undanúrslitin.
Stemmningin í Sláturhúsinu var með ólíkindum þegar leikurinn hófst og húsið lék á reiðiskjálfi. Gestirnir mættu þó augljóslega betur stemmdir til leiksins og skoruðu fyrstu 8 stigin í leiknum áður en Keflvíkingar náðu að svara fyrir sig. Þeir unnu muninn þó fljótt upp aftur og náðu forystunni 11-10. Stólarnir, sem léku án Nick Boyd sem fyrr, létu það ekki slá sig út af laginu, heldur tóku stjórnina í leiknum. Clifton Cook og vinsælasti maðurinn í húsinu, David Sanders, Fóru hreinlega á kostum og léku hripleka Keflavíkurvörnina grátt.
Að loknum fyrsta leikhluta voru gestirnir því með 13 stiga forskot, 20-33, og útlitið var allt annað en bjart fyrir Keflvíkinga.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og vörnin hjá Keflvíkingum lagaðist nokkuð í öðrum leikhluta. Nokkuð vantaði þó upp á áræðni þeirra í sókninni þar sem Derrick Allen dró vagninn og er skemmst frá því að segja að Allen lék eins og draumur í kvöld. Þessi sigur er honum algjörlega að þakka og hafa verið reistar styttur af fólki fyrir minni afrek en það sem hann sýndi í kvöld.
Heimamenn náðu að saxa á forskotið áður en flautað var til hálfleiks, en náðu þó ekki að taka Stólana nógu sterkum tökum og voru enn 10 stigum á eftir í leikhléi, 44-54.
Með sanni má segja að farið hafi um áhorfendur þegar Tindastóll byrjaði seinni hálfleik á því að skora fyrstu 6 stigin og leit út fyrir að þeir myndu stinga af og klára leikinn. Allen skoraði fyrstu stig sinna manna eftir rúmar tvær mínútur og eftir það fóru hjólin að snúast í sóknarleik Keflvíkinga þar sem þeir sóttu hægt og rólega á og voru búnir að minnka muninn í 7 stig fyrir lokafjórðunginn.
Keflvíkingar mættu gallharðir til leiks fyrir lokakaflann og fóru þeir félagar Arnar Freyr og Nick Bradford loks að láta til sín taka. Þeir fóru fyrir sínum mönnum sem unnu muninn upp og jöfnuðu 75-75 eftir 2 mínútna leik. Eftir það fór í hönd ótrúlegur leikkafli þar sem spennan var í algleymingi. Liðin skiptust á að hafa forystuna, en Stólarnir höfðu yfirleitt frumkvæðið. Þegar 15 sekúndur voru eftir af leiknum höfðu Keflvíkingar boltann og staðan var jöfn, 96-96. Boltinn barst þá til Fannars Ólafssonar sem skoraði undir körfunni og tryggði þar með sigurinn. Tindastóll hafði 7 sekúndur til að svara, en náðu ekki að nýta þær.
„Þetta var bara eins og alvöru úrslitaleikur.“ sagði Falur Harðarson í leikslok. „Við gerðum okkur erfitt fyrir með lélegum kafla í fyrri hálfleik, en við hættum aldrei að trúa því að þetta væri hægt.“ Falur sparaði ekki hrósið þegar talið barst að Derrick Allen. „Hann dró vagninn gjörsamlega fyrir okkur og það er gott að vera með menn eins og hann sem geta tekið af skarið þegar á þarf að halda.“ Hann minntist einnig sérstaklega á framlag Arnars Freys sem kom sterkur inn undir lokin.
GRINDAVÍK-KR
Grindvíkingum fataðist flugið illilega í fyrsta leik liðanna sem þeir töpuðu í Röstinni, en þeir völtuðu yfir KR-ingana í öðrum leik liðanna. Í kvöld var því að duga eða drepast fyrir bæði lið ef þau ætluðu sér áfram í keppninni.
Grindvíkingar hófu leikinn í kvöld betur en gestirnir úr vesturbænum og leiddu, naumlega þó, 23-20, eftir fyrsta leikhluta. Þeir héldu forskotinu fram að leikhléi, en KR tóku sig vel á í upphafi seinni hálfleiks og unnu upp forskotið og komust yfir á tímabili. Þá tóku Grindvíkingar við sér á ný og tóku góðan kafla þar sem Pétur Guðmundsson fór fyrir sínum mönnum með tveimur 3ja stigakörfum í röð. Munurinn fór upp í 12 stig fyrir heimamenn sem virtust hafa leikinn tryggilega í hendi sér. Þá fór að gæta á því að Grindvíkingar hættu að sækja og reyndu þess í stað að verja forskotið, en slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. KR-ingarnir gengu á lagið og náðu að minnka muninn allt niður í eitt stig áður en heimamenn hrukku í gírinn enn einu sinni og náðu þeir að klára leikinn eftir spennandi lokakafla þar sem hefði getað brugðið til beggja vona.
Friðrik Ingi hjá Grindavík var ánægður með leik sinna manna í kvöld, en bætti við að þeir mættu ekki við mistökum eins og þeir gerðu sig seka um á köflum í kvöld. „Það getur farið illa þegar maður leikur við djöfulinn, en þetta hafðist. Það er raunar aldrei auðvelt að ná upp baráttu eftir stóra sigurleiki eins og sá síðasti var, en nú erum við farnir að horfa til undanúrslitanna. Þau leggjast bara vel í mig þar sem þetta eru allt alvörulið.“
Hér má finna tölfræði leikjanna
VF-Myndir: Tobías