Keflavík og Grindavík töpuðu bæði
Eftir tíu umferðir í Pepsi-deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu skrapar Keflavík botninn. Hafa fengið þrjú stig, enginn sigurleikur, aðeins þrjú jafntefli og sjö tapaðir leikir.
Þessi sjöundi tapleikur sumarsins bættist einmitt í safnið í dag þegar Valur kom í heimsókn suður með sjó til að sækja þrjú stig og styrkja stöðu sína á toppnum, þar sem þeir sitja með 24 stig.
Gestirnir gerðu út um leikinn á fimm mínútna kafla í fyrri hálfleik. Skoruðu fyrra markið á 28. mínútu og það síðara á 33. mínútu en það voru þeir Ívar Örn Jónsson og Patrick Pedersen sem skoruðu mörk gestanna.
Það mætti í raun halda að veðrið hér á SV-horninu og gengi Keflavíkur séu sama Excel-skjalið. Það sér vart til sólar á báðum stöðum.
Grindvíkingar hrösuðu illa í Vestmannaeyjum fyrr í dag. Þeir töpuðu 3-0 fyrir ÍBV á Hásteinsvelli. Grindvíkingar sitja þó áfram í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig en Eyjamenn komustu úr fallsæti og í 7. sæti með sigrinum í dag.