Keflavík og Grindavík sigra. Njarðvík tapar
Keflavík-Fjölnir
Keflvíkingar hrósuðu sigri gegn nýliðum Fjölnis í kvöld, 96-74. Fjölnismenn gáfu heimamönnum í Sláturhúsinu ekkert eftir og leiddu með nokkrum stigum um miðjan fyrsta leikhluta þegar Keflvíkingar tóku góða rispu og skoruðu 12 stig í röð.
Eftir það stóð ekki steinn yfir steini hjá þeim og Fjölnismenn söxuðu hægt og rólega á forskotið. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 28-22 fyrir Keflavík en ólán þeirra hélt áfram. Fjölnismenn notfærðu sér algert getuleysi heimamanna og sigu framúr í 2. leikhluta þar sem Keflvíkingar skoruðu einungis 8 stig.
Staðan í hálfleik var 36-43 fyrir Fjölni og þeir bættu enn í í upphafi seinni hálfleiks. Þeir náðu þar 10 stiga forskoti, 40-50, áður en Keflavíkurhraðlestin fór loksins, loksins í gang. Keflvíkingar skiptu í svæðisvörn sem gestirnir réðu ekkert við. Keflavík skoraði 8 stig í röð þar sem 3ja stiga karfa frá Gunnari Einarssyni kom þeim í 48-50 og heimamenn voru greinilega að hitna. Þeir komust svo yfir, 57-56, þegar 3 mín voru eftir af leikhlutanum.
Fyrir lokakaflann var staðan 69-65 fyrir Keflavík en síðasti fjórðungur var þeirra eign með öllu. Magnús Gunnarsson og Anthony Glover fóru fyrir sínum mönnum sem jöfnuðu Njarðvíkinga að stigum og sitja í efsta sæti deildarinnar með sigrinum.
Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur var að vonum ekki sáttur við leik sinna manna til að byrja með. „Við bara mættum ekki til leiks fyrr en í seinni hálfleik. Fjölnismenn voru að standa sig ágætlega en það er eins og hefur verið sagt, „Það leikur enginn betur en andstæðingurinn leyfir.““
Tölfræði leiksins
Haukar-Njarðvík
Haukar lögðu topplið Njarðvíkur í spennandi leik að Ásvöllum, 91-83. Úrslitin réðust ekki fyrr en eftir framlengingu þar sem Haukar reyndust sterkari.
Heimamenn byrjuðu nokkuð betur og höfðu 2ja stiga forystu, 21-19 eftir fyrsta leikhluta. Njarðvíkingar bættu varnarleik sinn til muna í öðrum leikhluta og náðu forystunni. Staðan var 37-39 í hálfleik og Njarðvíkingar bættu nokkuð í eftir hlé. Þeir náðu mest 11 stiga forskoti en Haukar unnu það upp áður en leikhlutanum lauk. Staðan að honum loknum var jöfn, 57-57.
Í fjórða leikhluta höfðu heimamenn frumkvæðið lengst af, en lokaskekúndurnar voru æsispennandi. Brenton skoraði 5 stig í röð á ögurstundu og kom sínum mönnum í 73-76 þegar um 4 sek voru eftir. Nýji Kaninn í liði Hauka, Damon Flint, setti þá magnað 3ja stiga skot af löngu færi í þann mun sem lokaflautið hljómaði.
Leikurinn fór í framlengingu þar sem Haukar voru miklu betri aðilinn. John Waller fór fyrir sínum mönnum og skoraði 11 af 15 stigum þeirra í framlengingunni og Njarðvíkingar þurftu því að sætta sig við annað tapið í röð á stuttum tíma og gáfu toppsætið eftir til Keflvíkinga.
„Þetta var dýrt tap,“ sagði Einar Árni hjá Njarðvík í leikslok. „Þeir voru einfaldlega betri en við í framlengingunni.“
Tölfræði leiksins
KR-Grindavík
Grindvíkingar byrjuðu vel með nýjum þjálfara þar sem þeir unnu góðan sigur á KR á útivelli í kvöld, 90-94.
Kr-angar byrjuðu betur og voru yfir 32-26 eftir 1. leikhluta. Í hálfleik var staðan 43-39 en Grindvíkingar hófu seinni hálfleikinn með miklu trukki og náðu strax forystunni.
Henni héldu þeir til loka þar sem þeir leiddu, 64-68 fyrir lokaleikhlutann og þó að KR hafi sótt fast að þeim undir lokin héldu Grindvíkingar aftur af þeim og höfðu sigur að lokum.
Terry Taylor átti góðan leik fyrir Grindavík og virðist þesi tröllvaxni miðherji vera mikill lukkufengur fyrir þá gulu. Hann var með 24 stig og 19 fráköst í kvöld.
„Þetta var kannski frekar slakur leikur, en sigurinn var góður,“ sagði Páll Axel Vilbergsson, fyriliði Grindavíkur eftir leikinn. Einar Einarsson, nýr þjálfari liðsins, fékk ekki mikinn tíma til að undirbúa sína menn en Páll segir að leikmennirnir láti þjálfaraskiptin ekki á sig fá. „Andinn og stemmningin í liðinu er góðþannig að þetta er góð byrjun á nýjum tíma hjá Grindavík.“
Tölfræði leiksins
VF-myndir/Hilmar Bragi