Keflavík og Grindavík áfram í undanúrslit
Grindvík og Keflvík eru komin áfram í undanúrslit í Powerade-bikar karla eftir heimasigra í kvöld. Keflavík tók á móti Þór Akureyri í Toyotahöllinni og hafði að lokum öruggan sigur, 100-81. Gunnar Einarsson var atkvæðamestur í liði Keflavíkur og setti niður 19 stig. Steven Gerrard og Jesse Pelot-Rosa skoruðu 14 stig, en sá síðarnefndi er nýgengin til liðs við Keflavík.
Hjá Þór Ak. var Cedric Isom atkvæðamestur með 23 stig, Milorad Damjanaz skoraði 17 stig og Hrafn Jóhannesson var með 15 stig.
Í Grindavík tóku heimamenn á móti nágrönnum sínum úr Njarðvík. Jafnræði var með liðunum fram að hálfleik, en í síðari hálfleik skildu leiðir og Grindvíkingar sigu framúr. Að lokum hafði Grindavík öruggan sigur, 106-84, og átti Páll Axel Vilbergsson stórleik fyrir þá gulklæddu. Hann skoraði alls 39 stig og tók sex fráköst. Arnar Freyr Jónsson og Damon Baily skoruðu 15 stig.
Í liði Njarðvíkur átti Logi Gunnarsson fínan leik og skoraði 25 stig. Slobodan Subasic kom næstur og skoraði 18 stig. Magnús Þór Gunnarsson lét reka sig úr húsi í lok fyrri hálfleiks fyrir óíþróttalega framkomu, og munaði um minna fyrir Njarðvíkinga sem voru fáliðaðir í kvöld.
Nú er ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum. Keflavík mætir KR í fyrri undanúrslita viðureigninni og Grindavík mætir Snæfelli. Báðir leikirnir fara fram í Laugardagshöll á föstudagskvöld.
VF-MYNDIR/JJK, Hilmar Bragi: Keflavík og Grindavík eru komin í undanúrslit í Powerade-bikarnum.