Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Föstudagur 22. nóvember 2002 kl. 22:35

Keflavík og Grindavík áfram í Kjörísbikarnum

Keflavík og Grindavík komust í kvöld í úrslit Kjörísbikarsins í körfuknattleik sem fram fara á morgun kl. 16:30. Grindvíkingar sigruðu Hauka örugglega, 94:71, eftir að hafa leitt allan leikinn en staðan í hálfleik var 49:39. Keflavík sigraði KR, 87:78, í síðari leik undanúrslitanna en staðan í hálfleik var 43:40. Leikurinn var æsispennandi allan tímann en um miðjan 4. leikhluta náðu heimamenn góðu forskoti sem þeir létu ekki af hendi. Hjá Grindvíkingum var Darrell Lewis stigahæstur með 27 stig en hann var að spila vel í kvöld og skora mikið inni í teig. Guðmundur Bragason var einnig drjúgur og setti niður 17 stig gegn sínum gömlu félögum og þá skoruðu Páll Axel Vilbergsson og Guðlaugur Eyjólfsson sín 14 stigin hvor.

Hjá Keflvíkingum var Damon Johnson stigahæstur með 26 stig en næstur kom Gunnar Einarsson með 23 stig.
Maður leiksins var þó án efa Jón Norðdal Hafsteinsson sem barðist eins og brjálæðingur allan leikinn, eltandi alla lausa bolta, fleygjandi sér í gólfið, hirðandi fráköst og spila magnaða vörn. Hann stal 8 boltum af andstæðinginum, hirti 14 fráköst, skoraði 6 stig og varði 3 skot og var hreint og beint unun að fylgjast með drengnum leggja sig svona mikið fram. Án efa hans besti leikur á tímabilinu þrátt fyrir að skora ekki mikið enda fullt af slíkum leikmönnum í liði Keflvíkinga.

Það verða því Keflavík og Grindavík sem leika til úrslita í Kjörisbikarnum í Keflavík á morgun og hefst viðureign liðanna klukkan 16.30. Sigurliðið fær 250.000 í verðlaunafé frá Kjörís en tapliðið 50.000.

Þess má að lokum geta að Guðjón Skúlason leikmaður Keflvíkingar lék í kvöld sinn 700. leik fyrir félagið. Stjórn körfuknattleiksdeildarinnar ásamt stuðningsmönnum verðlaunuðu kappann með glæsilegu úri að verðmæti um 200 þúsund krónur. Þá fékk Sverrir Sverrisson einnig viðurkenningu fyrir að hafa spilað 100 leiki fyrir félagið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024