Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík náði stigi í Kópavogi
Sunnudagur 18. maí 2008 kl. 22:03

Keflavík náði stigi í Kópavogi

Keflavík landaði í kvöld sínu fyrsta stigi í Landsbankadeild kvenna í knattspyrnu er liðið gerði 1-1 jafntefli gegn Breiðablik á Kópavogsvelli. Að loknum tveimur umferðum hafa Keflvíkingar því eitt stig en liðið lá 1-2 gegn KR í fyrstu umferð. Það var Danka Podovac sem jafnaði metin fyrir Keflavík á 63. mínútu og þar við sat. Bæði lið fengu fjölmörg góð marktækifæri til þess að stela sigrinum en varnir beggja liða reyndust oft þrautgóðar á raunastund.
 
Þær Guðný Petrína Þórðardóttir og markvörðurinn Jelena Petrovic voru ekki með Keflvíkingum í kvöld. Guðný er enn að jafna sig af langvarandi meiðslum og lungann úr leiknum gegn KR á dögunum og það hefur verið henni um megn. Þá meiddist Petrovic í leiknum gegn KR og því var Dúfa Ásbjörnsdóttir í Keflavíkurmarkinu í kvöld og varði oft stórkostlega.
 
Blikar voru mun ákveðnari í upphafi leiks og á 21. mínútu dró til tíðinda þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir koma Breiðablik í 1-0. Blikar áttu langskot sem kom hátt inn að Keflavíkurmarkinu. Dúfa markvörður stökk upp eftir boltanum og sló hann niður í teig þar sem Berglind kom aðvífandi og skoraði örugglega. Dúfa hefði betur slegið boltann yfir markið eða reynt að grípa hann en það er gott að vera vitur eftir á.
 
Keflvíkingar áttu í stökustu vandræðum með að byggja upp sóknir í fyrri hálfleik og Blikar pressuðu stíft á gesti sína. Á 37. mínútu áttu Blikar skot í slá og hver stórsókn heimamanna dundi á Keflvíkingum. Staðan var þó einungis 1-0 fyrir Blika þegar liðin gengu til hálfleiks.
 
Strax í upphafi síðari hálfleiks voru Keflvíkingar mun grimmari og tóku hægt og bítandin völdin í leiknum. Á 53. mínútu skaut Danka Podovac boltanum í slánna á Blikamarkinu og sóknir Keflavíkur þyngdust í kjölfarið. Tíu mínútum síðar tókst Keflavík að brjóta ísinn með glæsimarki frá Dönku.
 
Danka var með boltann skammt utan við teig og lét vaða á markið sem Elsa Einarsdóttir markvörður Blika varði í netið. Fast skot sem Elsa náði til en tókst ekki að koma veg fyrir markið og staðan því 1-1. Elsa meiddist á fæti skömmu fyrir markið og lék hölt það sem eftir lifði leiks og var það nánast óskiljanlegt af hverju henni var ekki skipt af velli og líkast til hefði markvörður heill á fæti náð að skutla sér almennilega á eftir boltanum og hugsanlega koma í veg fyrir markið.
 
Það sem eftir lifði leiks áttu bæði lið mjög góð færi og það besta hjá Keflavík átti fyrirliðinn Lilja Íris Gunnarsdóttir átti skalla rétt fram hjá Blikamarkinu á 79. mínútu. Keflvíkingar áttu aukaspyrnu á vinstri kantinum og Lilja Íris komst ein og óvölduð á fjærstöng og skallaði framhjá og fór nokkuð illa að ráði sínu í þessu dauðafæri.
 
Fleiri urðu mörkin ekki þrátt fyrir skeinuhættar sóknir beggja liða og lokatölur því 1-1 eins og áður greinir.
 
Dúfa Ásbjörnsdóttir stóð sig vel í Keflavíkurmarkinu og vörn Keflvíkinga var góð í kvöld rétt eins og í KR-leiknum í fyrstu umferð en það er ljóst að liðinu vantar töluverðan brodd í sóknarleik sinn þegar Guðný Petrína er fjarverandi.
 
Næsti leikur Keflavíkur er föstudaginn 23. maí þegar Fylkir mætir á Sparisjóðsvöllinn í Keflavík kl. 19:15.
 
Byrjunarlið Keflavíkur
Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir, markvörður, Inga Lára Jónsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Elísabet Ester Sævarsdóttir, Lilja Íris Gunnarsdóttir fyrirliði, Danka Podovac, Vesna Smiljkovic, Guðrún Ólöf Olsen, Agnes Helgadóttir, Linda Rós Þorláksdóttir og Björg Magnea Ólafs.
 
VF-Mynd/ [email protected]Keflvíkingar fagna marki Dönku á Kópavogsvelli í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024