Keflavík með þrjá bikartitla - fjör á bikarúrslitahelgi
Nágrannaslagur Keflavíkur og Njarðvíkur hafa löngum þótt skemmtilegt íþróttaefni og ein viðureign fór fram í morgun í bikarúrslitahelgi Körfuknattleikssambandsins þegar 9. flokkar liðanna áttust við. Njarðvíkingar áttu ekkert í gríðar sterkt Keflavíkurlið sem vann stóran sigur 75-41 og fór Eva Rós Guðmundsson hamförum í leiknum, skoraði 23 stig, tók 18 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Næst Evu var Lovísa Falsdóttir með 13 stig en hún er dóttir körfuboltahjónanna Fals Harðarsonar og Margrétar Sturlaugsdóttur.
Þetta var þriðji bikartitill Keflavíkur á helginni. Sá fyrsti kom í gær þegar Keflavíkurstúlkur í 10. flokki unnu Grindavík. Lokatölur urðu 61-37 og var Árný Gestsdóttir valin besti maður leiksins, húnskoraði 14 stig, tók 9 fráköst og stal 5 boltum. Liðið sem er að mestu skipað stúlkum fæddum 1993 unnu þennan titil í fyrra og hafa verið ósigrandi. Það vakti mikla athygli þegar Írena Sól Jónsdóttir,11 ára gömul stúlka í Keflavíkurliðinu kom inn á, á síðustu mínútunni. Í hópnum var líka önnur 11 ára dama, Elfa Falsdóttir en hún kom ekki inn á í leiknum því hún fann til í öxlinni eftir upphitun. Þær tvær fylltu í leikmannahópinn hjá ’93 liðinu.
Annar titillinn hjá Keflavík í gær kom þegar unglingaflokkur karla vann Val í úrslitum 102-87. Þar fóru mikinn kunnir kappar úr meistaraflokksliði Keflavíkur, þeir Sigurður Þorsteinsson og Hörður Axel Vilhjálmsson. Hörður var valinn besti maður leiksins en hann skoraði 32 stig og var með tíu stoðsendingar.
Á hádegi í dag hófst leikur UMFN og KR í 10. flokki karla og strax á eftir honum leika UMFN og Keflavík B í stúlknaflokki.
Ítarleg umfjöllun frá bikarhelginni er á hinni vinsælu körfuboltasíðu karfan.is
Glaðar Keflavíkurstúlkur eftir sigurinn. Á efri myndinni er Eva Rós Guðmundsdóttir en hún var kjörin besti maður leiksins.
Hörður Axel Vilhjálmsson skoraði 32 stig og var besti maður leiksins þegar Keflavík vann í unglingaflokki karla eftir sigur á Val.
Írena Sól hlustar á eldri og reyndari stúlku úr Keflavíkurliðinu. Ungur nemur..
Myndir: karfan.is og Hildur Björk Pálsdóttir.