Keflavík með sigur en Grindavík gerði jafntefli
Fjórir leikir fóru fram í Landsbankadeild karla í kvöld. Keflvíkingar gerðu góða ferð upp á Skipaskaga og unnu ÍA, 1-4 í fjörugum leik. Símun Samuelsen og Guðmundur Steinarsson skoruðu fyrir Keflvíkinga áður en Arnar Bergmann Gunnlaugsson minnkaði muninn fyrir heimamenn. Patrik Redo skoraði svo tvö mörk með stuttu millibili fyrir Keflvíkinga, sem eru þar með komnir með 33 stig í deildinni, einu stigi á eftir FH.
Grindvíkingar urðu að sætta sig við jafntefli gegn Breiðablik. Grindvíkingar komust í 2-0 með mörkum frá Scott Ramsey og Tomasz Stolpa. Í seinni hálfleik náði Marel Baldvinsson að minnka muninn með laglegu skoti. Jóhann Berg Guðmundsson var síðan hetja Breiðabliks þegar hann skoraði á lokaandartökum leiksins með glæsilegu marki. Grátlegt fyrir Grindvikinga en þeir misstu einnig tvo leikmenn útaf vegna meiðsla og þurftu að leika síðustu 10 mínúturnar einum færri því þeir gulklæddu voru búnir með skiptingarnar. Grétar Ólafur Hjartarsson meiddist illa og er líklegt að hann hafi slitið krossband. Ef það reynist rétt er ljóst að tímabilið er búið hjá honum. Tekið skal fram að það er ekki staðfest.
Nánar verður greint frá leikjunum síðar...
ÍA 1 - 4 Keflavík
0-1 Simun Samuelsen ('9)
0-2 Guðmundur Steinarsson ('19)
1-2 Arnar Bergmann Gunnlaugsson ('49)
1-3 Patrik Redo ('75)
1-4 Patrik Redo ('82)
Grindavík 2 - 2 Breiðablik
1-0 Scott Ramsay ('5)
2-0 Tomasz Stolpa ('45)
2-1 Marel Baldvinsson ('56)
2-2 Jóhann Berg Guðmundsson ('96)
VF-MYND/JJK: Milan Stefán Jankovic var skiljanlega svekktur í leikslok eftir að liðsmenn hans höfðu misst leikinn niður í jafntefli.