Keflavík með góðan sigur á Leikni í Bestu deild karla
Keflvíkingar unnu öruggan 3:0 sigur á Leiknismönnum í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Mörkin skoruðu Adam Ægir Pálsson (5'), Patrik Johannesen (52') og Helgi Þór Jónsson (81').
Það er óhætt að segja að miðað við frammistöðu má furðu sæta að Keflavík hafi aðeins verið komið með eitt stig fyrir leik kvöldsins. Í báðum leikjunum á undan leiknum við Leikni komust Keflvíkingar tveimur mörkum yfir en misstu forystuna niður í bæði skipti, tap gegn KA og jafntefli við ÍBV.
Keflvíkingar voru ekkert að hugsa um það þegar þeir mættu Leiknismönnum á HS Orkuvellinum í kvöld og voru sókndjarfir og ákveðnir í sínum aðgerðum. Adam Ægir Pálsson kom Keflavík yfir á fimmtu mínútu en Adam átti fínan leik og var býsna líflegur.
Rúnar Þór Sigurgeirsson og Sindri Þór Guðmundsson komu með góðan hraða upp kantana og sköpuðu oft usla í vörn Leiknis og þá var hinn færeyski Patrik Johannesen mjög ógnandi, skoraði mark með skoti utan teigs (52') og var nærri því að endurtaka leikinn seint í leiknum. Einnig má aldrei afskrifa Joey Gibbs sem er alltaf eins og gammur í kringum markið, tilbúinn að refsa fyrir minnstu yfirsjón markvarðar og varnar.
Gibbs var skipt út af á 74. mínútu og í hans stað kom Helgi Þór Jónsson sem var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Helgi var mjög sprækur og ætlaði augljóslega að nýta vel tækifærið sem honum gafst en hann var fljótur að koma sér í færi og náði að ógna vel fyrir framan mark Leiknis. Eftir að hafa verið inn á vellinum í um fimm mínútur skoraði hann svo eftir góða sendingu frá Sindra Þór af hægri kanti (81'). Helgi sótti þá af miklu harðfylgi og hafði betur gegn markverði Leiknis í 50/50 bolta. Staðan þá orðin 3:0 og augljóst að fyrsti sigur Keflvíkinga á Íslandsmótinu í ár var að verða að veruleika. Með sigrinum lyftir Keflavík sér úr neðsta sæti í það níunda.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, ræddi við Harald Guðmundsson, aðstoðarþjálfara Keflvíkinga, eftir leik og má sjá það í spilaranum hér að neðan auk fagnaðarláta leikmanna Keflavíkur.