Keflavík með baráttusigur í Grindavík
Það var ansi napurt í Grindavík í kvöld þar sem heimamenn tóku á móti grönnum sínum úr Keflavík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Keflvíkingar höfðu sigur að þessu sinni 0-2 en hart var barist og bæði lið áttu sín færi. Andri Steinn Birgisson og Guðmundur Steinarssson sáu um markaskorun Keflvíkinga í kvöld en strákarnir úr Bítlabænum nýttu færin ólíkt Grindvíkingum sem var fyrirmunað að skora og Ómar Jóhannsson átti flottan leik í marki Keflvíkinga.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þrátt fyrir að heimamenn hafi kannski átt ívið hættulegari færi. Það voru hinsvegar gestirnir sem voru fyrri til að setja mark sitt á leikinn er Andri Steinn náði að skora eftir undirbúning frá Guðmundi Steinarssyni rétt áður en Kristinn Jakobsson dómari flautaði til leikhlés. Ágætis skemmtun þrátt í fyrri hálfleik fyrir kalda norðanátt sem setti svip sinn á leikinn.
Óskari Péturssyni urðu svo á dýrkeypt mistök þegar 60 mínútur voru liðnar af leiknm og markahrókurinn Guðmundur Steinarsson færði sér það í nyt. Guðmundur jafnaði þar með markamet föðurs síns en báðir hafa þeir skorað 72 mörk í efstu deild fyrir Keflavík.
Sigurinn hefði getað fallið öðru hvoru megin en í kvöld stóðu Keflvíkingar uppi sem sigurvegarar og þeir sitja nú í öðru sæti deildarinnar með 8 stig eftir fjórar umferðir. Grindvíkingar eru hins vegar í 10. sæti, enn með 3 stig.
Andri Steinn Birgisson skorar í lok fyrri hálfleiks
Keflvíkingar fagna marki Andra
Guðmundur Steinarsson vippar boltanum yfir Óskar Pétursson
Ólafur Örn þjálfari Grindavíkur í baráttu við Magnús Þorsteinsson