Keflavík marði KR í spennuleik
Keflvíkingar lögðust allir á eitt og með góðu framlagi flestra leikmanna tókst deildarmeisturunum að koma sér í 1-0 gegn nýliðum KR í úrslitaeinvígi Iceland Express deildar kvenna. Liðin mættust í sínum fyrsta leik í dag þar sem Keflavík fór með nauman 82-81 sigur af hólmi og var hin magnaða TaKesha Watson valin besti maður leiksins með 21 stig, 12 stoðsendingar og 9 fráköst og vantaði hana því aðeins eitt frákast til að landa glæsilegri þrennu. Fjórir leikmenn Keflavíkur gerðu 10 stig eða meira í leiknum en hjá KR voru þær Hildur Sigurðardóttir og Candace Futrell stigahæstar. Futrell með 29 stig og Hildur 26. Liðin mætast í sínum öðrum leik í DHL-Höllinni í Vesturbænum á þriðjudagskvöld kl. 19:15.
Birna Valgarðsdóttir var hættuleg fyrir utan þriggja stiga línuna í dag en hún setti niður 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og lauk leik með 19 stig og 3 fráköst. Birna opnaði leikinn með þrist og höfðu Keflvíkingar frumkvæðið allan leikinn nema eitt sinn þegar KR komst yfir 8-9 með þriggja stiga körfu frá Futrell og síðan ekki söguna meir.
Staðan var 23-16 eftir fyrsta leikhluta þar sem Halldóra Andrésdóttir gerði góðan þrist fyrir Keflavík undir lok leikhlutans en gestirnir úr Vesturbænum neituðu að láta skilja sig eftir þó Keflavík væri skrefi á undan.
Varnarmaðurinn öflugi Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fékk snemma í öðrum leikhluta sína þriðju villu hjá KR og þá voru þær Pálína og Margrét Kara einnig að glíma við villuvofuna hjá Keflavík.
Staðan í leikhléi var 44-38 fyrir Keflavík þar sem Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir fyrirliði Keflavíkur var stigahæst í hálfleik með 10 stig. Ingibjörg hefur haft þann starfa að koma sem vítamínssprauta inn í lið Keflavíkur en undanfarið hefur hún ekki verið í byrjunarliðinu og virðist þetta fyrirkomulag virka vel fyrir Keflvíkinga. Þær Futrell og Hildur voru svo báðar með 14 stig hjá KR í hálfleik.
Rétt eins og í fyrri hálfleik opnaði Birna þann síðari með þriggja stiga körfu og staðan orðin 47-38 fyrir Keflavík. Vesturbæingar áttu þó góðan lokasprett í þriðja leikhluta og komu muninum niður í þrjú stig, 63-60, og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta.
Hildur Sigurðardóttir var jafnan í því hlutverki að halda KR inni í leiknum og gerði oft stórar körfur sem komu í veg fyrir að Keflavík gæti stungið af. Ingibjörg Elva kom Keflavík í 78-71 með þriggja stiga körfu en þá vöknuðu KR-ingar og hófu að saxa verulega á forskot heimamanna.
Þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka var staðan 82-78. Keflavík missti boltann í næstu sókn og svo gerðu KR-ingar eitt stig af línunni, 82-79. Næsta sókn Keflavíkur rann einnig út í sandinn og á hinum enda vallarins stökk Guðrún Gróa upp í nánast vonlaust stökkskot af endalínunni með tvo varnarmenn Keflavíkur í sér. Skotið rataði rétta leið með einhverjum ólíkindum og staðan 82-81 þegar 30 sekúndur voru til leiksloka.
Næsta Keflavíkursókn fékk snöggan enda er heimamenn köstuðu boltanum frá sér. KR hélt til sóknar og 22 sekúndur eftir af leiknum og áttu nýliðarnir þess kost að stela leiknum. Skot KR geigaði, Keflavík náði frákastinu og fagnaði loks naumum sigri í hjartastyrkjandi leik.
Eins og fyrr greinir fór TaKesha Watson á kostum í dag og var valin maður leiksins. Fyrir vikið fær hún farmiðaúttekt hjá Iceland Express. Þær Birna, Ingibjörg, Pálína og Rannveig áttu einnig flottan dag í liði Keflavíkur. Hjá KR voru þær Futrell og Hildur yfirburðamenn en Guðrún Gróa átti líka flotta spretti. Helga Einarsdóttir gerði 2 stig í leiknum en hún reif niður 17 fráköst hjá KR og er óðar að skipa sér sess sem einn af sterkustu miðherjum deildarinnar.
VF-Mynd/ [email protected] – Watson sæl og kát með farmiðaúttektina en hún var valin besti maður leiksins í dag.