Keflavík leikur í 50 ára Íslandsmeistarabúningnum
– í Pepsi-deildinni í sumar
Knattspyrnulið Keflavíkur mun leika í svörtum keppnisbúning í Pepsi-deildinni í sumar. Búningurinn var „afhjúpaður“ í höfuðustöðvum Landsbankans í vikunni. Tilefnið er að fimmtíu ár eru liðin frá því að Keflavík varð Íslandsmeistari í knattspyrnu karla í fyrsta sinn í sögu félagsins.
„Það gafst því gott tækifæri til þess að heiðra þessa frábæru knattspyrnumenn sem lönduðu titlinum þá – og gera eitthvað skemmtilegt fyrir félagið í heild,“ sagði Þorsteinn Magnússon formaður og framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur. „Við erum ánægðir með búninginn sem kemur frá Nike. Okkur hefur lengi langað að leika í svörtu og þegar þessi hugmynd kom upp þá stukkum við á þetta,“ bætti Þorsteinn við. Keflavík mun aðeins nota „50 ára Íslandsmeistarabúninginn“ á þessari leiktíð og verður hann notaður á öllum leikjum liðsins ef það verður hægt.
Jón Óli Jónsson, sem var leikmaður Íslandsmeistaraliðs Keflavíkur árið 1964 tók þátt í að kynna þetta framtak og hann var ánægður með útkomuna. „Það er óhætt að segja það að þetta rifji upp gamla góða tíma. Ég er mjög ánægður með þetta. Það er draumurinn að Íslandsmeistaratitlarnir verði fleiri enda eru margir ungir og efnilegir leikmenn að koma upp í liðinu. Ég er bara bjartsýnná framtíðina,“ sagði Jón Óli.
„Mér líst vel á þetta og þessi búningur er virkilega vel heppnaður,“ sagði Hörður Sveinsson leikmaður Keflavíkur. „Ég er spenntur að fara að spila í þessum búning í sumar og það er stór og mikill heiður fyrir okkur að fá að heiðra þessa herramenn sem komu með fyrsta titilinn í Keflavík.“
Knattspyrnudeildin stendur fyrir herrakvöldi á föstudagskvöldið í Oddfellow-salnum og þar verður „50 ára Íslandsmeistarabúningur“ Harðar Sveinssonar boðin upp. Hörður var valinn leikmaður ársins hjá Keflavík á síðustu leiktíð.