Keflavík leikur í 1. deild að ári eftir tap gegn Val
„Við erum þegar farnir að horfa til framtíðar og huga að undirbúningi liðsins fyrir komandi baráttu í 1. deild að ári en það er auðvitað mjög sárt að Keflavík sé ekki með lið í efstu deild,“ sagði Haukur Ingi Guðnason, annar þjálfari Keflvíkinga í viðtölum eftir tapleik Keflavíkur gegn Val á Laugardalsvelli í kvöld. Lokatölur urðu 3-2 fyrir þá rauðklæddu. Eftir tapið varð ljóst að Keflavík er fallið niður í 1. deild.
Keflavík hefur aðeins unnið einn leik í sumar og er með 7 stig. Þetta er versta frammistaða Keflavíkur í efstu deild frá upphafi. Liðið hefur aðeins unnið einn leik, gegn ÍBV eftir að nýir þjálfarar tóku við. Liðið hefur fengið á sig 48 mörk og aðeins skorað 19. Haukur og Jóhann B. Guðmundsson voru ráðnir út tímabilið og ekki vitað um framtíð þeirra ekki frekar en forystu knattspyrnudeildarinnar.
Keflvíkingar voru betri í fyrri hálfleik og leiddu 1-2 í leikhléi með mörkum Magnúsar Þ. Matthíassonar og Martins Hummervoll. Það voru hins vegar þeir rauðklæddu sem voru miklu betri í síðari hálfleik og þeir skoruðu tvö mörk og unnu leikinn.
Keflvíkingar sýndu mjög góð tilþrif í fyrri hálfleik en eins og oft áður þurftu þeir að sjá oftar á eftir boltanum í eigið mark en hinum megin. Ungu mennirnir í Keflavíkurliðinu áttu þátt í báðum mörkunum. Framherjinn Leonard Sigurðsson var felldur innan teigs þegar Keflavík fékk víti og Fannar Orri Sævarsson átti „atvinnumanna“-sendingu á Norðmanninn Hummervoll sem skoraði annað markið.
Guðjón Árni Antóníusson lék sinn 200. leik í efstu deild gegn Val. 167 þeirra hafa verið fyrir Keflavík.
Hann sagði aðspurður um framtíðina við Morgunblaðið vera samningsbundinn Keflavík eitt ár enn og það væri ekkert annað á dagskránni en að spila áfram. „Nú er ég stuttu búinn að fá nýja greiningu eftir mælingar, ég var alltaf með hugann við það hvort ég væri virkilega í lagi og hvort mér væri óhætt að æfa og spila áfram. Svo kom í ljós í greiningunni að þetta væri ekki tengt heilanum, heldur væri það innra eyrað sem gerði það að verkum að ég fékk þennan svima. Það var mikill léttir að komast að því og geta haldið óhræddur áfram að æfa og spila. Það er erfitt að spila fótbolta ef eitthvað heldur aftur af manni. Þá væri að betra að hætta,“ sagði Guðjón Árni við mbl.is.