Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík leikur gegn KA í kvöld
Miðvikudagur 14. júlí 2004 kl. 14:28

Keflavík leikur gegn KA í kvöld

Keflavík mætir KA í kvöld í Landsbankadeild karla. Leikurinn fer fram á Keflavíkurvelli og hefst kl. 19.15.

Liðin eru jöfn að stigum í deildinni með 11 stig og gæti það lið sem sigrar í kvöld skotist upp í fjórða sætið.

Liðin mættust á Akureyri í fyrstu umferð deildarinnar í vor og hafði Keflavík sigur, 1-2, eftir góða frammistöðu í seinni hálfleik. Hólmar örn Rúnarsson og Jónas Guðni Sævarsson skoruðu mörk Keflvíkinga eftir að Hreinn Hringsson kom KA yfir.

„Við verðum að fara að snúa blaðinu við!“ segir Hörður Sveinsson, hinn ungi framherji Keflavíkur. Hann bætir því við að þeir hafi verið mjög óheppnir í síðustu leikjum. „Við verðum að fara að rífa okkur upp. Við lítum þannig á við erum að byrja tímabilið aftur. Seinni helmingurinn er eftir og við ætlum að gera mun betur en í þeim fyrri.“

Keflvíkingar lofuðu góðu í fyrstu leikjunum og spiluðu skemmtilegan og árangursríkan bolta. Þeir hafa þó að undanförnu sigið hægt og bítandi niður töfluna og eru nú í 8. sæti sem er alls ekki í takt við væntingar þrátt fyrir að liði sé nýkomið upp í efstu deild á ný.
„Við viljum vera meðal þeirra fimm efstu og erum með liðið í það,“ segir Hörður að lokum. „Við erum ungir strákar í þessu liði og kunnum bara ekki að tapa. Þegar við förum að vinna leiki aftur verðum við ekki stöðvaðir!“

Norðanmenn verða hins vegar ekki auðveld bráð því þeir hafa náð góðum úrslitum að undanförnu þar sem Jóhann Þórhallsson og Pálmi Rafn Pálmason hafa verið iðnir við markaskorun.

VF-mynd/Atli Már Gylfason: Úr síðasta leik Keflavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024