Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík leiddi lengst af en tapaði gegn Snæfelli
Laugardagur 7. febrúar 2009 kl. 11:39

Keflavík leiddi lengst af en tapaði gegn Snæfelli


Keflvíkingar töpuðu fyrir Snæfelli í Iceland Express deild karla í gærkvöldi 73-81 og gestirnir hafa því jafnað við Íslandsmeistarana í 3. sæti deildarinnar.

Keflvíkingar byrjuðu betur og komust í 20-9 og 26-15 og með harðfylgi og þriggja stiga skotum sem rötuðu rétta leið rétt fyrir hálfleik tryggðu heimamönnum forystu í leikhlé, 40-33.

Snæfellingar komu mjög sterkir til leiks í seinni hálfleik og jöfnuðu fljótt 41-41 en heimamenn náðu þó að halda litlu forskoti áður en fjórði leikhluti hófst, 55-52.

Snæfellingar komust fljótt í 55-60 í fjórða leikhluta sem varð mjög spennandi og skemmtilegur nema fyrir Keflvíkinga sem áttu ekkert svar við góðum leik gestanna sem tryggðu sér sigur með 8 stiga mun þrátt fyrir að vera undir í þremur leikhlutum.

Hjá Keflavík skoraði Hörður Axel Vilhjálmsson mest eða 17 stig og var með 12 stoðsendingar. Jón Norðdal skoraði 16 (15 fráköst) og Sigurður Þorsteinsson skilaði 14 stigum og var með fimm fráköst. Óneitanlega lág tala í fráköstunum hjá risanum. Wagner skoraði mest hjá Snæfelli, átján stig.

Á sama tíma og Keflavík og Snæfell áttust við léku b-lið Keflavíkur og Njarðvík í 1. deild kvenna. Keflavíkurliðið, að mestu skipað stúlkum á sextánda ári gerði sér lítið fyrir og sigraði heimamenn í jöfnum og skemmtilegum leik. Nánar um það síðar í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VF-mynd: Sverrir Sverrisson og félagar hans í Keflavík máttu þola tap gegn Snæfelli í Toyota höllinni.