Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Keflavík komið í úrslit
Þriðjudagur 24. ágúst 2004 kl. 22:01

Keflavík komið í úrslit

Keflavíkurstúlkur tryggðu sér í kvöld þátttökurétt í úrslitaleik 1. deildarinnar með 2-2 jafntefli gegn Þrótti Reykjavík. Fyrri leikur liðanna, sem fram fór í Reykjavík, endaði með 4-3 útisigri Keflavíkur og fóru báðir leikirnir því samanlagt 6-5 fyrir Keflavík.

Leikurinn í kvöld fór rólega af stað en Keflavík, á heimavelli, voru ívið sterkari í byrjun og uppskáru eftir því á 12. mínútu. Lilja Gunnarsdóttir skallaði boltann fram völlinn, við honum tók Ólöf Helga Pálsdóttir og komst ein gegn markmanni Þróttar og sendi knöttinn upp í hægra markhornið, Keflavík 1-0 Þróttur.

Eftir markið sóttu Keflvíkingar hart að Þrótturum og átti Ólöf Helga tvö stangarskot með skömmu millibili en ekki vildi boltinn inn.

Þegar yfirburðir Keflavíkurliðsins virtust vera algjörir skoruðu gestirnir þvert gegn gangi leiksins eftir góða fyrirgjöf. Markið gerði Fjóla Friðriksdóttir á 25. mínútu og hófst nú langur og lélegur kafli heimamanna. Fátt markvert gerðist eftir mark gestanna og fóru liðin því jöfn inn í hálfleik, 1-1.

Seinni hálfleikur hófst líkt og sá fyrri endaði, tilþrifalítill og ljóst að heimamenn sættu sig við jafntefli. Keflavíkurstúlkur voru sterkara liðið á vellinum en voru þó langt frá sínu besta. Á 68. mínútu tók Þróttur hornspyrnu sem barst inn í vítateig, þar upphófst mikill hamagangur sem endaði með skoti sem fór í hendi eins varnamanns Keflavíkur og því réttilega dæmd vítaspyrna. Spyrnuna tók Fríða Rúnarsdóttir og skoraði hún örugglega, Keflavík 1-2 Þróttur.

Staðan 1-2, Þrótti í vil, nægði Keflavík til þess að komast áfram og virtust heimamenn ekki vera ýkja skelfdir yfir stöðunni. Á 86. mínútu leiksins var Ólöfu Helgu Pálsdóttur ekki lengur til setunnar boðið og tók hún málin í sínar hendur. Ólöf fékk góða stungusendingu inn fyrir vörn Þróttar og tók á rás að markinu þar sem hún skoraði enn á ný ein á móti markmanni. Lokatölur leiksins voru því 2-2 jafntefli og Keflavíkurstúlkur því komnar áfram.

Ásdís Þorgilsdóttir, þjálfari Keflavíkurliðsins, var ánægð í leikslok; „Þetta var þvílík spenna alveg frá upphafi til enda og ég er mjög ánægð, gæti vart verið glaðari í dag. Nú er það bara ÍA á laugardaginn, ég ætla aðeins að skoða stöðuna okkar eftir þennan leik í kvöld og skoða liðið en við komum ákveðnar til leiks á laugardaginn,“ sagði Ásdís að lokum.

Það verða því Keflavík og ÍA sem mætast í úrslitaleiknum á laugardaginn sem hefst kl. 14.00 og verður hann leikinn á hlutlausum velli. Það lið sem ber sigur úr býtum mun öðlast keppnisrétt í úrvalsdeild að ári liðnu en tapliðið mun spila gegn því liði sem lendir í 7. sæti í úrvalsdeildinni þar sem liðið í 8. sæti fellur í 1. deild.

VF-myndir/ Héðinn Eiríksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024