Keflavík komið í 2-1 eftir öruggan sigur
Geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fjórða leiknum á mánudag.
Keflavíkurstúlkur unnu stóran og öruggan sigur á KR í 3. úrslitaleik liðanna í Domino's deild kvenna í körfubolta í Toyota-höllinni í Keflavík, lokatölur urðu 72-51.
Heimamenn náðu forystu strax í byrjun og skoruðu 12 fyrstu stigin í leiknum og KR-ingar áttu aldrei möguleika eftir það. Eftir 1. leikhluta leiddu Keflavíkurstúlkur með 14 stigum, 25-11 og í hálfleik var staðan 36-20. Keflvikingar héldu áfram að bæti við forskotið og í lokin munaði 21 stigi á liðunum og öruggur sigur Keflavíkur staðreynd.
„Vörnin skóp þennan sigur. Það var gaman að sjá hvernig Pálína afgreiddi McCallum í þessum leik og hélt henni undir 10 stigum. Stemningin var frábær í okkar liði og við ætlum að klára þetta í næsta leik.“ sagði aldursforsetinn í liðinu, Birna Valgarðsdóttir en hún var besti leikmaður Keflavíkur í þessum leik. Auk hennar voru Pálína Gunnarsdóttir og Jessica Jenkins mjög góðar.
Sigurður Ingimundarsson var ánægður með stelpurnar: „Þetta var þægilegur sigur, stelpurnar léku vel og voru gríðarlega einbeittar. Við stefnum á það að klára þetta næsta leik.“
4. leikur liðanna verður í DHL-höllinni, n.k. Mánudagskvöld.
Keflavík: Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 17/12 fráköst, Jessica Ann Jenkins 17/8 fráköst/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 15/5 fráköst/6 stoðsendingar, Bryndís Guðmundsdóttir 10/7 fráköst/5 stoðsendingar, Sara Rún Hinriksdóttir 8, Ingunn Embla Kristínardóttir 5.
KR: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 11/5 fráköst, Shannon McCallum 9/14 fráköst/5 stoðsendingar, Rannveig Ólafsdóttir 7, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 6/5 fráköst, Björg Guðrún Einarsdóttir 6, Helga Einarsdóttir 6/9 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 3, Sara Mjöll Magnúsdóttir 3/6 fráköst.
Myndir/Páll Orri
Birna Valgarðsdóttir átti stórleik.
Sara Rún skoraði 8 stig og tók 3 fráköst.
Keflavíkurstúlkur fögnuðu vel í kvöld.