Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík knúði fram oddaleik eftir sigur í Sláturhúsinu í Keflavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 12. maí 2024 kl. 21:50

Keflavík knúði fram oddaleik eftir sigur í Sláturhúsinu í Keflavík

Keflavík og Grindavík mættust fjórða sinni í undanúrslitarimmu sinni í Subway-deild karla í kvöld en fyrir leik kvöldsins var Grindavík búið að vinna tvo leiki en Keflavík einn. Leikar fóru þannig að Keflavík vann öruggan sigur, 89-82 eftir að hafa leitt með 12 stigum í hálfleik og verið komið í 22 stiga mun þegar lítið var eftir í þriðja leikhluta. Grindavík kom með gott áhlaup í fjórða leikhluta en það dugði ekki til og draumur körfuknattleiksfólks staðreynd, oddaleikur á þriðjudagskvöld í Smárnum.

Eftir að hafa verið rassskelltir í þriðja leiknum í Smáranum á miðvikudagskvöld, var komið að Keflvíkingum að borga í sömu mynt og svo sannarlega létu þér kné fylgja kviði í byrjun leiksins, þeir skoruðu fyrstu 12 stig leiksins og unnu opnunarleikhlutann 27-15! Sigurður Pétursson og Marek Dolezaj voru sjóðandi heitir, Sigurður með 10 stig og Marek með 8. Fátt um fína drætti hjá Grindvíkingum og í raun sama tuð og manndrápsaugnráð til dómaranna, sem varð þeim að falli í leik tvö.

Grindavík tókst ekki að minnka muninn í öðrum leikhluta en náðu þó að halda í horfinu, staðan eftir fyrri hálfleik 53-41. Sigurður áfram á eldi, kominn með 16 stig í hálfleik, Jaka Brodnik var kominn með 12 og Urban Oman kominn í 10 stig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hjá Grindavík var Deandre Kane sá eini með lífsmarki hvað varðar skorun, hann var kominn með 17 stig og var líka búinn að fá eina ásetningsvillu og merkilegt nokk, var hann ekki sáttur við þann dóm... Sorglegt að þessi frábæri leikmaður einbeiti sér ekki bara að því að vera góður í körfubolta, nokkuð ljóst að ef hann myndi halda áfram á þessari sömu braut eins og í öðrum leiknum, að þá færi þessi sería í oddaleik.

Ef einhver hélt að gestirnir kæmu eins og hungruð ljón inn í seinni hálfleikinn hafði sá hinn sami kolrangt fyrir sér, áður en varði var munurinn kominn upp í 19 stig, 62-43 og Jóhann þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé. Mestur fór munurinn upp í 22 stig en Grindvíkingar náðu að búa sér til líflínu með góðum lokaspretti og voru „bara“ 14 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 69-55.

Dedrick Basile setti sýningu á svið í upphafi þriðja leikhluta og var búinn að setja þrjá þrista og tveggja stiga körfu og Keflavík varla búið að skora, staðan allt í einu orðin 71-66 og hörkuleikur í gangi! Keflvíkingar rönkuðu við sér úr rotinu, fundu aftur fjölina og sigldu að lokum öruggum sigri heim, 89-82.

Erfitt að taka einn Keflvíking út fyrir sviga, frábær liðsheild sem skóp þennan sigur en líklega ekki á neinn hallað ef sonur þjálfarans, Sigurður Pétursson, fær nafnbótina maður leiksins. Hann endaði með 24 stig og 7 fráköst. Jaka Brodnik líka frábær, með 23 stig.

Hjá Grindavík var Dedrick Basile bestur að mati blaðamanns, hann kveikti neistann í fjórða leikhluta en hann dugði ekki til að þessu sinni. Fyrrnefndur Deandre Kane stelur þó alltaf fyrirsögninni... frábær leikmaður, líklega með þeim betri sem hafa leikið hér á landi og segir sagan að hann væri í NBA ef hann hefði alltaf bara einbeitt sér að því að spila körfubolta.

Framundan draumur körfuknattleiksáhugafólks, oddaleikur í Smáranum á þriðjudagskvöld skv. heimasíðu KKÍ.

Dómararnir kíktu tvisvar sinnum á sjónvarpsskjáinn í fyrsta leikhluta.