Keflavík klúðraði gullnu tækifæri – FH-ingar vinna í fjörugum leik
Síðasti leikur 11. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu fór fram í dag í Kaplakrika þegar Keflavík sótti FH heim. Þetta var einn mikilvægasti leikur Keflvíkinga í sumar en með sigri hefði liðið blandað sér í toppbaráttuna af alvöru.
Leikurinn var fjörugur frá upphafi og eftir aðeins sex mínútur hafði Keflavík skorað fyrsta markið. Var þar að verki Baldur Sigurðsson en hann skoraði með laglegum skalla. Það tók ekki FH-inga nema eina og hálfa mínútu að jafna en þá skoraði Sigurvin Ólafsson gullfallegt mark og staðan 1-1 eftir átta mínútna leik.
Keflavík sótti af krafti eftir jöfnunarmark FH-inga og átti Guðmundur Steinarsson skot að marki heimamanna en það var laust. FH komst yfir þegar Matthías Vilhjálmsson kom boltanum í markið eftir að hafa fylgt eftir eigin skoti. Hafnfirðingar komnir í 2-1 og góður kraftur í þeim.
Á 30. mínútur misstu FH-ingar mann út af þegar Sverrir Garðarsson fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir glórulausa tæklingu á miðjunni. Hann hafði fengið fyrr í leiknum gult spjald fyrir munnbrúk við dómarann, dýr orð það. Eftir það sóttu Keflvíkingar af miklum krafti og áttu nokkur ágæt skot en ekkert þeirra olli Daða Lárussyni miklum vandræðum í marki heimamanna.
Hallgrímur Jónasson komst einn í gegn og var felldur af Daða Lárussyni, markmanni FH, og dómari leiksins dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu. Marco Kotilainen gekk upp að punktinum og setti hann af öruggi í markið og staðan 2-2. Fátt markvert gerðist það sem eftir var og liðin fóru jöfn inn í hálfleik.
Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. Keflvíingar voru sterkari í upphafi hans enda manni fleiri. Þeir settu pressu á Hafnfirðinga en náðu þó aldrei að skapa sér almennileg marktækifæri.
Pétur Heiðar Kristjánsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Keflavík í dag þegar hann skipti við Guðmund Viðar Mete þegar um hálftími var af leiknum.
Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum skoraði FH mark sem reyndist sigurmarkið. Tryggvi Guðmundsson á lausa sendingu inn í teig og Bjarki Guðmundsson, markvörður Keflvíkinga, missir hann úr höndunum aftur fyrir sig. Freyr Bjarnason kemur aðvífandi og setur boltann í markið 3-2 heimamönnum í vil.
Fljótlega eftir markið vildi Keflavík fá vítaspyrnu en dómari leiksins sá ekki ástæðu til að dæma annað víti.
Keflvíkingar áttu fjölmörg skot eftir þetta en þau dugðu ekki til og FH-ingar unnu.
Eftir leik dagsins eru FH komnir með 5 stiga forystu á toppnum og virðist fátt geta stöðvað þá eftir þetta. Keflavík er í 3.-4. sæti með 18 stig eins og ÍA.
Nýjasti liðsmaður Keflvíkinga Pétur Heiðar Kristjánsson sagði að tapið hafi skyggt á frumraun hans en það hefði verið ánægjulegt að fá að spila. ,,Það var hrikalega svekkjandi að tapa þessum leik enda fannst mér að við ættum að ná að vinna hann eða minnsta kosti að fá eitt stig út úr honum,” sagði Pétur og taldi að liðið ætti enn möguleika að ná efsta sætinu, það væri bara erfiðara núna.
VF-mynd/Stefán Þór Borgþórsson – Guðjón Árni Antoníusson reynir að stöðva hetju FH-inga, Frey Bjarnason, í leiknum í dag.