Keflavík kláraði Leikni í fyrri hálfleik
Keflvíkingar fóru með stórsigur af hólmi þegar þeir tóku á móti Leiknismönnum í Lengjudeild karla í kvöld. Það tók Keflavík ekki nema fjórar mínútur að rjúfa innsiglið á marki gestanna og í kjölfarið bættu þeir fjórum mörkum við áður en blásið var til hálfleiks.
Keflavík - Leiknir 5:0
Það var Ari Steinn Guðmundsson sem skoraði fyrsta markið eftir ágætis undirbúning Mamadou Diaw (4') og einungis tveimur mínútum síðar bætti Stefán Jón Friðriksson við öðru marki eftir fyrirgjöf Nacho Heras (6').
Draumabyrjun hjá Keflavík og veislan hélt áfram þrátt fyrir að gestirnir reyndu að rífa sig í gang eftir hörmulega byrjun.
Á tuttugustu mínútu komst Diaw inn í slaka sendingu hægri bakvarðar Leiknis á markvörðinn sem reyndi að ná til boltans en var of seinn í boltann, felldi Diaw og vítaspyrna dæmd. Dagur Ingi Valsson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi (20').
Átta mínútum síðar varð skelfileg frammistaða varnarmanna Leiknis til þess að fjórða mark Keflavíkur leit dagsins ljós. Keflavík pressaði á vinstri bakvörð gestanna sem sendi til baka á miðvörðinn. Sá hafði tíma en átti svo stórhættulega þversendingu sem Dagur Ingi komst inn í rétt utan vítateigs Leiknis. Dagur fór vandræðalaust framhjá varnarmanni sem hreinlega settist í grasið, hann lék upp að markteig og sendi í fæturna á fyrirliðanum Frans Elvarssyni sem stýrði boltanum í netið (28').
Frans launaði sendinguna stuttu síðar þegar hann vann boltann á vallarhelmingi Leiknis og sendi góða stungusendingu á Dag Inga sem setti punktinn yfir i-ið með fimmta marki heimamanna (36') og innsigaði stórsigur þeirra því ekkert mark var skorað í síðari hálfleik.
Rétt áður en fyrri hálfleikur var blásinn af fékk Mamadou Diaw spark í sig, rétt við varamannaskýli Keflvíkinga, þegar hann var að kljást við Leiknismann um boltann. Dómara leiksins yfirsást þetta atvik en það gerði Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, ekki og í illsku kastaði hann vatnsbrúsa í jörðina. Ekki vildi betur til en svo að bbrúsinn skoppaði inn á völlinn og Haraldi var umsvifalaust sýnt rauða spjaldið (45'+1).
Þetta var fyrsti leikurinn í sjöttu umferð og með sigrinum fór Keflavík upp í fjórða sæti deildarinnar en Leiknismenn sitja á botninum, einu stigi fyrir neðan Þrótt R. og Grindavík.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, kíkti á leikinn og má sjá myndasafn neðst á síðunni. Þá er hægt að horfa á leikinn í spilaranum hér að neðan.