Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Keflavík kláraði KR í seinni hálfleik
Carvin Burks var atkvæðamestur Keflvíkinga í kvöld með nítján stig og sex fráköst. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 1. nóvember 2021 kl. 23:58

Keflavík kláraði KR í seinni hálfleik

Komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar

Keflavík er komið í átta liða úrslit VÍS-bikars karla í körfuknattleik eftir tvísýna viðureign í Blue-höllinni í kvöld. Öll þrjú Suðurnesjaliðin eru því komin upp úr sextán liða úrslitunum í bikarkeppni karla en Grindavík og Njarðvík tryggðu sig áfram í gær.

Keflavík - KR 84:77

(22:33, 26:21, 17:12, 19:11)

Það verður að teljast hálfótrúlegt að Keflavík hafi aðeins verið sex stigum á eftir í hálfleik (48:54) en varnarleikur liðsins var óttalega dapur í fyrri hálfleik. Það eitt að liðið fékk aðeins þrjár villur dæmdar á sig í tveimur fyrstu leikhlutunum segir hálfa söguna en varnarlega vantaði mikið upp á að menn væru að leggja sig fram.

Hörður Axel smellti niður þremur þristum í upphafi síðari hálfleiks og kveikti neistann í sínum mönnum með mikilli baráttugleði.

Það átti eftir að breytast og allt annað Keflavíkurlið mætti á gólfið í seinni hálfleik. Fyrirliðinn, Hörður Axel Vilhjálmsson, fór fyrir liðinu með góðu fordæmi í upphafi þriðja leikhluta og setti tóninn með meiri ákefð og meiri grimmd í vörninni auk þess að setja niður þrjá þrista í röð og breyta stöðunni í 57:56. Leikurinn var í járnum út þriðja leikhluta og fram í miðjan fjórða en þá sigu Keflvíkingar að lokum fram úr og lönduðu góðum sjö stiga sigri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frammistaða Keflvíkinga var ekkert til að hrópa húrra fyrir í kvöld (nema þá kannski baráttunni sem kom í seinni hálfleik) og voru þeir að misnota talsvert af opnum færum. Góður karaktersigur engu að síður og það eitt skiptir máli.

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflvíkinga, þungt hugsi yfir varnarleik sinna manna í fyrri hálfleik. Hann hefur sennilega gefið þeim boost í hálfleik enda voru leikmenn talsvert hressari í þeim síðari.

Frammistaða Keflvíkinga: Calvin Burks Jr. 19/6 fráköst, Dominykas Milka 19/12 fráköst, Jaka Brodnik 14/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 11/6 stoðsendingar, David Okeke 8/6 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 7, Magnús Pétursson 3, Valur Orri Valsson 3/7 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Arnór Sveinsson 0, Ágúst Orrason 0, Nikola Orelj 0.

Tölfræði leiks.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá fjölmargar myndir frá leiknum í myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - KR (84:77) | VÍS-bikar karla 1. nóvember 2021