Keflavík kláraði KR í seinni hálfleik
Komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar
Keflavík er komið í átta liða úrslit VÍS-bikars karla í körfuknattleik eftir tvísýna viðureign í Blue-höllinni í kvöld. Öll þrjú Suðurnesjaliðin eru því komin upp úr sextán liða úrslitunum í bikarkeppni karla en Grindavík og Njarðvík tryggðu sig áfram í gær.
Keflavík - KR 84:77
(22:33, 26:21, 17:12, 19:11)
Það verður að teljast hálfótrúlegt að Keflavík hafi aðeins verið sex stigum á eftir í hálfleik (48:54) en varnarleikur liðsins var óttalega dapur í fyrri hálfleik. Það eitt að liðið fékk aðeins þrjár villur dæmdar á sig í tveimur fyrstu leikhlutunum segir hálfa söguna en varnarlega vantaði mikið upp á að menn væru að leggja sig fram.
Það átti eftir að breytast og allt annað Keflavíkurlið mætti á gólfið í seinni hálfleik. Fyrirliðinn, Hörður Axel Vilhjálmsson, fór fyrir liðinu með góðu fordæmi í upphafi þriðja leikhluta og setti tóninn með meiri ákefð og meiri grimmd í vörninni auk þess að setja niður þrjá þrista í röð og breyta stöðunni í 57:56. Leikurinn var í járnum út þriðja leikhluta og fram í miðjan fjórða en þá sigu Keflvíkingar að lokum fram úr og lönduðu góðum sjö stiga sigri.
Frammistaða Keflvíkinga var ekkert til að hrópa húrra fyrir í kvöld (nema þá kannski baráttunni sem kom í seinni hálfleik) og voru þeir að misnota talsvert af opnum færum. Góður karaktersigur engu að síður og það eitt skiptir máli.
Frammistaða Keflvíkinga: Calvin Burks Jr. 19/6 fráköst, Dominykas Milka 19/12 fráköst, Jaka Brodnik 14/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 11/6 stoðsendingar, David Okeke 8/6 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 7, Magnús Pétursson 3, Valur Orri Valsson 3/7 fráköst, Þröstur Leó Jóhannsson 0, Arnór Sveinsson 0, Ágúst Orrason 0, Nikola Orelj 0.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Blue-höllinni og má sjá fjölmargar myndir frá leiknum í myndasafni neðst á síðunni.