Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 3. apríl 2000 kl. 23:57

Keflavík jafnaði einvígið á heimavelli

Annar leikurinn í úrslitunum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta fór fram í Keflavík í kvöld þar sem Keflavík vann, 68:61. Keflavík var yfir allan leikinn, þrátt fyrir að KR næði að narta í hælana á þeim á köflum. Keflvíkingar réðu lögum og lofum á vellinum í fyrri hálfleik, skoruðu m.a. sjö fyrstu stigin í leiknum, meðan fátt gekk upp hjá KR. Fjórtán stig skildu liðin að í hálfleik og var Keflavík yfir 35:21. Í upphafi síðari hálfleiks snérist dæmið hins vegar við og allt gekk á afturfótunum hjá heimamönnum, en KR-ingar tóku við sér og voru oft nálægt því að jafna metin. Keflavíkurstúlkur hleyptu þeim hins vegar ekki svo nálægt og tryggðu sér sjö stiga sigur. Anna María Sveinsdóttir, sem lék mjög vel fyrir Keflavík í leiknum (27 stig, 4 þriggja stiga) Sagði eftir leikinn að KR hafi slegið þær út af laginu með sterkri vörn í síðari hálfleik: “Þetta hafðist á hörkunni í kvöld, við þurfum að vinna einn útisigur í úrslitunum og við ætlum að gera það í næsta leik.” Erla Þorsteinsdóttir átti mjög fínan leik fyrir Keflavík (25 stig) og Christie Cogley lék þokkalega (9 stig). Í liði KR var Deanne Tate atkvæðamest (16 stig), Emilie Ramberg lék mjög vel í leiknum (14 stig) og átti sérlega góða spretti í síðari hálfleik. Gréta M Grétarsdóttir átti einnig fínan leik fyrir KR (14 stig).
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024