Keflavík jafnaði einvígið
Keflvíkingar unnu Stjörnumenn 100-87 á heimavelli sínum í 8-liða úrslitum Domino's deildar karla í körfubolta. Því er ljóst að oddaleikur mun fara fram í Garðabæ á fimmtudag. Keflvíkingar náðu mest yfir 20 stiga forystu og höfðu leikinn í höndum sér allan tímann. Talsverður hiti var i leiknum og fékk m.a. Jovan Zdravevski að fjúka úr húsi fyrir að hrinda Magnúsi Gunnarssyni leikmanni Keflvíkinga.
Keflvíkingar mættu mun ferskari til leiks og ljóst að þeir ætluðu að selja sig dýrt. Þeir voru grimmir og ákveðnir í öllum sínum aðgerðum á meðan Stjörnumenn virtust frekar afslappaðir. Keflvíkingar urðu fyrir mikilli blóðtöku þegar Michael Craion meiddist á ökkla í öðrum leikhluta. Aðrir leikmenn heimamanna lentu snemma í villuvandræðum og því var ljóst að Sigurður Ingimundarson þurfti að leita dýpra á bekkinn hjá sér.
Snorri Hrafnkelsson sýndi og sannaði að þar fer efnilegur piltur en hann sýndi flott tilþrif og skoraði 12 í leiknum. Keflvíkingar leiddu með 12 stigum í hálfleik en strax í upphafi þess síðari dróg til tíðanda. Jovan Zdraveski var sendur í sturtu eftir að hann sló til Magnúsar Gunnarsson.
Stjörnumenn voru ekki á því að játa sig sigraða og komu með ágætis áhlaup undir lokin. Það dugði þó ekki til og Keflvíkingar lönduðu ákaflega sterkum sigri.
Keflavík: Darrel Keith Lewis 26/10 fráköst/5 stolnir, Magnús Þór Gunnarsson 24/5 fráköst/5 stoðsendingar, Billy Baptist 16/9 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 12, Arnar Freyr Jónsson 9/5 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 8/4 fráköst, Michael Craion 3/3 varin skot, Ragnar Gerald Albertsson 2, Andri Daníelsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Sigurður Vignir Guðmundsson 0, Andri Þór Skúlason 0.
Stjarnan: Jarrid Frye 23/8 fráköst, Justin Shouse 18/7 fráköst/11 stoðsendingar/6 stolnir, Brian Mills 14/4 fráköst/5 varin skot, Marvin Valdimarsson 13, Jovan Zdravevski 12, Kjartan Atli Kjartansson 4, Sæmundur Valdimarsson 2, Fannar Freyr Helgason 1/7 fráköst, Dagur Kár Jónsson 0, Oddur Rúnar Kristjánsson 0, Magnús Bjarki Guðmundsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0.
Billy Baptist og Valur Orri Valsson sækja að körfu Stjörnunnar. Myndir/Páll Orri
Darrel Lewis með skotið.