Keflavík Íslandsmeistari í unglingaflokki karla
Mætti sameinuðu liði Skallagríms og Snæfells, Snægrími, í úrsitum í gær.
Keflvíkingar urðu Íslandsmeistarar með 99-84 sigri í leik gegn sameinuðu liði Skallagríms og Snæfells, eða Snægrímur, í úrslitum unglingaflokks karla í Smáranum í gær. Skemmtilegur leikur þar sem framtíð Íslands í körfubolta sýndi listir sínar. Þetta kemur fram á karfan.is.
Mjög mikið var skorað í fyrri hálfleik hjá báðum liðum eða 47-55, sem er jafnvel mikið í meistaraflokki. Landsliðsmiðherjinn Stefán Karel Torfason fór mikinn fyrir Snægrími og skoraði jafnt sem að spila grimma vörn. Hann setti niður 12 stig í fyrsta fjórðung og 15 í þeim næsta. Keflvíkingar hertu hins vegar skrúfurnar að honum í seinni hálfleik og náði hann aðeins að skora 7 stig í seinni hálfleik.
Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi þar til 10-0 sprettur Keflvíkinga í lok annars leikhluta kom þeim í þægilega forystu rétt fyrir hálfleik sem þeir létu ekki eftir það sem eftir lifði leiks.
Varnarleikur Keflvíkinga var frábær en þeir héldu Snægrími í 0,98 stigum per sókn en skoruðu sjálfir 1,19. Valur Orri Valsson fór á kostum fyrir lið Keflvíkinga með 31 stig (4/9 í þristum), 11 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Gunnar Ólafsson var einnig flottur með 23 stig (4/6 í þristum) og 6 fráköst. Andri Daníelsson átti góðan leik einnig með 17 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.
Hjá Snægrími var Stefán Karel öflugastur 34 stig, 12 fráköst og 3 varin skot. Minna fór fyrir framlagi annarra leikmanna nema þá einna helst frá Jóhanni Kristófer og Þorbergi Helga sem voru með 12 og 11 stig. Þorbergur bætti við 8 fráköstum. Snjólfur Björnsson studdi vel við liðsfélaga sína í sókninni með 11 stoðsendingum.
Keflvíkingar hittu ágætlega úr þriggja stiga skotum eða 11/35 en þeir tóku aðeins þrjú skot af millifæri og hittu úr tveimur þeirra. Allt hitt kom af þriggja stiga línunni eða í teignum. Snægrímur hafði betur í baráttunni í teignum, skoruðu 48 stig þar á móti 42 frá Keflavík. Þeir unnu frákastabaráttuna með umtalsverðum mun eða 40 á móti 29 en náðu ekki að nýta sér það til að uppskera sigur. Stefán Karel sýndi gríðarlega skilvirkni í teignum þar sem hann tók 18 skot og nýtti 15 þeirra til að skora 30 stig.
Maður leiksins var verðskuldað Valur Orri Valsson, Keflavík.
Myndir: Hörður Tulinius,